Ísland er skuldbundið alþjóðlegum samningum
Mál hælisleitenda sem búsettir eru í Reykjanesbæ hafa verið mikið í umræðunni undanfarið og hafa margar spurningar vaknað meðal fólks á svæðinu. Víkurfréttir hafa fengið sendar spurningar varðandi mál hælisleitenda og einnig hefur málefnið verið áberandi umræðuefni á samfélagsmiðlum eins og Facebook. Algengustu spurningarnar sem fólk veltir fyrir sér virðast vera „hvað eru þessir menn að gera hér á landi og í Reykjanesbæ?“ og „hvers vegna eru þeir ekki sendir aftur til síns heimalands undir eins?“
Í næstu blöðum Víkurfrétta munu birtast greinar sem miðla að því að fræða almenning á Suðurnesjum um málefni hælisleitenda og vonandi svara spurningum sem brenna á fólki.
Hver er flóttamaður?
Flóttamaður er samkvæmt skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) frá 1951 og viðauka hans frá 1967 skilgreindur sem; sá sem er utan við heimaland sitt og af ástæðuríkum ótta við að verða ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar í sérstökum félagsmálaflokkum, eða stjórnmálaskoðana, og getur ekki eða vill ekki, vegna slíks ótta, færa sér í nyt vernd þess lands. Flóttamaður getur einnig verið sá sem er ríkisfangslaus, og er utan þess lands, þar sem hann hafði reglulegt aðsetur, vegna ofsókna og getur ekki eða vill ekki, vegna ótta við slíka atburði, hverfa aftur þangað. Ísland fullgilti samninginn árið 1955 og tók hann í gildi hér á landi árið eftir.
Þegar einstaklingur sækir um hæli utan eigin ríkis er hann í fyrstu skilgreindur sem hælisleitandi af stjórnvöldum viðkomandi ríkis. Með umsókn sinni um hæli er viðkomandi einstaklingur að biðja um viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður. Ef stjórnvöld fallast á réttmæti slíkrar umsóknar þá fær einstaklingurinn viðurkenningu á stöðu sinni sem flóttamaður samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Hér á landi hafa aðeins 5 manns fengið stöðu sína sem flóttamaður viðurkennda síðan 1991 en ekki má rugla því saman við „kvótaflóttamenn“ en það eru einstaklingar sem íslenska ríkið hefur boðið til landsins, og hafa komið 516 einstaklingar frá árinu 1956. Þeir flóttamenn sem búa í Reykjanesbæ um þessar mundir, á Fit Hostel og í öðrum íbúðarhúsnæðum koma á eigin vegum en Reykjanesbær tók einnig á móti 23 flóttamönnum frá Króatíu árið 2001, en sá hópur kom í boði íslenskra stjórnvalda.
Hvers vegna eru hælisleitendur ekki sendir til baka til heimalands síns eða „millilands“ sem viðkomandi kom frá?
Ísland er skuldbundið alþjóðlegum samningum til þess að rannsaka aðstæður hvers og eins sem sækir um hæli í landinu. Um leið og einstaklingur sækir um hæli hér á landi fer í gang umsóknarferli sem gagnrýnt hefur verið mikið undanfarið að taki of langan tíma. Á meðan Útlendingastofnun hefur umsókn hælisleitanda til skoðunar bíður hann úrlausnar mála sinna. Ef hælisleitandinn getur ekki haldið sér uppi sjálfur þá dvelur hann í Reykjanesbæ fyrir tilstuðlan samnings sem Reykjanesbær hefur gert við Útlendingastofnun.
Ísland hefur innleitt Dyflinnarreglugerð Evrópusambandsins en hún felur í sér skuldbindingu ríkja að rannsaka umsóknir útlendinga um hæli. Þar sem Ísland er landfræðilega staðsett þannig að það er ólíklegt að hælisleitandi komi með beinu flugi til Íslands frá heimalandi sínu, er líklegt að hann hafi áður sótt um hæli annars staðar. Það þýðir að flestir koma til landsins eftir að hafa sótt um hæli í öðru landi fyrst, og fengið höfnun á umsókn eða eru í ferli annars staðar. Af þeim sökum er stór hluti umsókna um hæli hér á landi afgreiddur á grundvelli Dyflinnar reglugerðarinnar en oftar en ekki er hælisleitanda neitað um hæli hér á landi og viðkomandi einstaklingur er sendur aftur til „millilandsins“ þar sem því ríki er skylt að taka við umsækjandanum.
Samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna er ríkjum óheimilt að senda hælisleitanda aftur til síns heimalands þar sem viðkomandi gæti verið í lífshættu, og að rannsaka hvort slíkt sé tilfellið fyrir hvern og einn tekur tíma. Það tekur tíma að rannsaka hvaðan hælisleitandinn kom og skoða sögu hans í „millilandi/löndum“. Tíminn sem hælisleitendur þurfa því að bíða getur verið allt að nokkrum árum. Hins vegar hefur innanríkisráðherra sagt nýlega að ætlunin sé að setja meira fjármagn í Útlendingastofnun og að hvert umsóknarferli eigi ekki að taka lengur en 6 mánuði.