Ísing olli ferjuflugvél vandræðum
Ísing varð þess valdandi að lítil eins hreyfils flugvél lenti í vandræðum vestur af Keflavík í gærkvöldi. Flugstjórn hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 20:50 í gærkvöldi og tilkynnti að eins hreyfils flugvél með einum manni um borð hafi sent út neyðarkall. Flugvélin var þá stödd 105 sjómilur vestur af Keflavík. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út. Einnig var óskað eftir aðstoð Varnarliðsins en þaðan voru sendar tvær þyrlur og þyrla danska eftirlitsskipsins Tritons, sem nú er statt í Reykjavíkurhöfn, var einnig sett í viðbragðsstöðu. Þá sendi Flugmálastjórn flugvél sína, TF-FMS, strax af stað og Loftskeytastöðin í Reykjavík var einnig beðin um að kalla út til skipa á svæðinu að fylgjast með og vera í viðbragðsstöðu.
Þegar flugvélin var komin niður í 6000 fet um kl. 21:20 virtust töluverðar líkur á að hún gæti haldið þeirri hæð áfram. Náði hún að fljúga til Keflavíkurflugvallar í fylgd flugvélar Flugmálastjórnar og þyrlanna þar sem hún lenti heilu og höldnu kl. 21:50. Vitað er að flugvélin lenti í erfiðleikum vegna ísingar.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson og Jóhannes Kr. Kristjánsson