Ísbirnir, hákarlar og hitabeltisfiskar í nýju sjávardýrasafni í Sandgerði?
Sjávarheimar er nafn á einkahlutafélagi í eigu Sandgerðisbæjar sem var nýlega stofnað til að kanna möguleika á að reist verði stórt og veglegt safn í bæjarfélaginu sem m.a. sérhæfi sig í söfnun og sýningu dýra úr lífríki norður Atlantshafsins. Gert er ráð fyrir safninu á 25 þúsund fermetra lóð neðan við Sjávargötu í Sandgerði. Frá þessu er greint á samfélagsvefnum 245.is í Sandgerði.
Ráðinn hefur verið fagaðili til að sjá um verkstjórn og er undirbúningsvinna vel á veg komin.
Hópur á vegum Sjávarheima fór til Danmerkur og Þýskalands dagana 29. maí til 2. júní 2007. Markmið ferðarinnar var að skoða sjávardýrasöfn og afla alhliða upplýsinga um uppbyggingu og rekstur slíkra safna, með hliðsjón af þeirri hugmynd og markmiði að koma á fót stóru sjávardýrasafni í Sandgerðisbæ.
Meðal þeirra safna sem voru skoðuð í ferðinni var Kattegatcentret í Grenaa á Jótlandi. Þar geta gestir m.a. gengið eftir glergöngum sem liggja í gegnum búrin og komist í nálægð við hákarla.
Á Vefnum 245.is segir að meðal þess sem sýningargestir geta átt von á að sjá í sjávardýrasafninu í Sandgerði eru ísbirnir, selir, hákarlar, hitabeltisfiskar, kórallar og hryggleysingjar. Þá stendur einnig til að vera með ákveðnar þemasýningar þar sem sem náttúra hafsins er tengd við sögu og menningu auk fræðslu um dýravernd svo eitthvað sé nefnt.
Að sögn Sigurðar Vals Ásbjörnssonar bæjarstjóra Sandgerðisbæjar og formanns stjórnar Sjávarheima ehf., er nú unnið að því að ljúka gerð viðskiptaáætlunar og annars undirbúnings. Ef allt gengur eftir er stefnt að því að hefja framkvæmdir árið 2008. Fyrirhuguð staðsetning safnsins er fyrir neðan Sjávargötu.
Mynd af hákörlum: Af vef Kattegatcentret
Mynd af stjórnarmönnum: Sjávarheimar ehf.| [email protected]
Sjá vefinn www.245.is
.