Isaviastarfsmenn greiða atkvæði um verkfall
– boða til baráttufundar í Andrews leikhúsi á Ásbrú í dag kl. 17:30
Í dag hefst atkvæðagreiðsla meðal þeirra starfsmanna Isaiva ohf sem eru félagsmenn í FFR, Félagi flugmálastarfsmanna. SFR og LSS sem starfa hjá fyrirtækinu. Kosningu lýkur á sunnudag og mun niðurstaða liggja fyrir á mánudag.
Að sögn Kristjáns Jóhannssonar formanns Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, FFR, hefur ekkert gengið í viðræðum og svo virðist sem allt sé stopp.
„Það gefur auga leið að deilan verður ekki leyst á meðan menn vilja ekki ræðast við. Það hefur ekki strandað á okkur að ræða við Samtök atvinnulífins sem fer með samningsumboð fyrir Isaiva. Við teljum okkur knúna til að stíga þetta skref. Að boða verkfall til að leggja áherslur á kröfur sínar eru óyndis úrræði en því verður beitt verði ekki breyting á hugarfari Isaiva til þess að semja við okkur,“ segir Kristján.
Áhrif af verkfalli myndi gæta á öllum flugvöllum landsins að sögn Kristjáns. „Ég er ekki tilbúin að útlista í smáatriðum hvernig að þessu verður staðið en ég get sagt það að verði verkfall samþykkt meðal félagsmana þá byrjar það með skærum, vinna verður stöðvuð í stuttan tíma,“ segir Kristján.
Félögin boða til baráttufundar í Andrews leikhúsi á Ásbrú í dag kl. 17:30 og þar verður einnig hægt að greiða atkvæði.