Isavia tilnefnt til Menntaverðlauna atvinnulífsins
- Verðlaunin eru veitt í fyrsta sinn.
Menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt í fyrsta sinn mánudaginn 3. mars á Hilton Reykjavík Nordica til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Isavia er eitt fjögurra fyrirtækja sem eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins 2014. Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins, en þar er einnig hægt að sjá ástæðu valsins í stuttu sjónvarpsinnslagi.
Önnur fyrirtæki sem eru tilnefnd sem Menntafyrirtæki ársins 2014 eru Landsbankinn, Rio Tinto Alcan á Íslandi og Samskip. Tilnefnd fyrirtæki leggja öll áherslu á mikilvægi menntunar og hafa skýra mennta-og fræðslustefnu sem er fylgt eftir. Við mat á tilnefningum voru gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækjanna og aukið samkeppnishæfni þeirra.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tilkynnir um úrslitin á Menntadegi atvinnulífsins.
Í dómnefnd sitja Hildur Elín Vignir, framkvæmdastjóri IÐUNNAR - fræðsluseturs, Steinn Logi Björnsson, stjórnarformaður Bláfugls, Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.