Isavia til umræðu á Alþingi
Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar spurði ferðamálaráðherra um fyrirkomulag á gjaldtöku Isavia á farþegaflutningum til Reykjavíkur
Isavia var til umræðu á Alþingi í gær þegar Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar spurði Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur ferðamálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum um gjaldtöku á farþegaflutningum frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur. Þorsteinn gagnrýndi framferði Isavia sem að hans sögn leyfir sér sem einokunarfyrirtæki í eigu ríkisins, að endurvekja einhvers konar sérleyfiskerfi með verulegri gjaldtöku.
„Það er eins og einokunarfyrirtækið Isavia hafi ákveðið að grípa fram í fyrir stjórnvöldum, eða kannski gafst fyrirtækið upp á því að bíða, um gjaldtöku í ferðaþjónustu, ég veit það ekki. En þetta er alla vega sú gjaldtaka sem þarna er á ferðinni varðandi útboð á leyfum eða aðstöðu fyrir þau tvö fyrirtæki sem fá að njóta þess, og eru að greiða held ég um 30–40% af tekjum sínum í aðstöðugjald, og svo þau fyrirtæki sem eiga að greiða 19.900 krónur fyrir að fá að leggja rútum við Leifsstöð, sem er langt umfram alla þá gjaldtöku sem við sjáum í nágrannalöndum okkar. Ég hygg að annars staðar á Norðurlöndum sé þetta meira og minna gjaldfrjáls þjónusta. Þetta hlýtur að vekja spurningar um það hvor ráði för, stjórnvöld eða einokunarfyrirtækið Isavia,“ sagði Þorsteinn.
Þórdís Kolbrún sagði það löngu vera kominn tíma á að skoða Isavia, hvort sem það eru áætlanir þeirra í fjárfestingum, hvernig haldið er utan um innanlandsflug eða varðandi þessa gjaldtöku sérstaklega. „Það er auðvitað mjög mikil stefnumótun í gangi, en að taka það allt saman með tilliti til samgönguáætlunar, með tilliti til þess hvað Isavia áformar að gera, þá þarf í miklu meira mæli að tala saman. Ég hef verið mjög skýr með það.“ Þórdís Kolbrún bendir enn fremur á að ráðherra ferðamála sé ekki með fulltrúa í stjórn Isavia en að hún hafi nú þegar sent Isavia erindi til að fá svör við spurningum um fyrirkomulag bílastæðagjaldanna.