Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Isavia tekur yfir bílastæðin við Leifsstöð
Miðvikudagur 21. nóvember 2012 kl. 18:10

Isavia tekur yfir bílastæðin við Leifsstöð

Frá og með áramótum mun Isavia taka við afgreiðslu á bílastæðunum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Frá þessu er greint á vefnum Túristi.is.

Þrátt fyrir að tvö rútufyrirtæki sinni áætlunarferðum milli höfuðborgarinnar og Keflavíkurflugvallar velja átta af hverjum tíu lesendum Túrista að keyra sjálfir í flugið, samkvæmt lesendakönnun síðunnar. Rekstur stæðanna hefur verið í höndum fyrirtækisins Icepark síðan sumarið 2009 en um áramót tekur Isavia umsjónina yfir. En félagið á og rekur þau sem og allan rekstrarbúnaður þeirra.

Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, segir að með breytingunum nái félagið að samnýta mannafla félagsins á flugstöðinni og nái þannig fram rekstrarhagræðingu. „Auk þess veitir breytingin félaginu fullan sveigjanleika í notkun landrýmisins eftir því sem á þyrfti hugsanlega að halda við endurbætur á flugstöðvarmannvirkjum án þess að þurfi að taka tillit til samninga um afgreiðsluna við annan aðila", segir jafnfram í svari Friðþórs.


Ódýrari en í nágrannalöndunum

Í dag kostar það 800 krónur að geyma bíl í sólarhring á stæðunum við flugstöðina sem er mun ódýrara en það kostar að leggja við stóru flugvellina á Norðurlöndum. Þannig kostar dagurinn á stæði við Kaupmannahafnarflugvöll á bilinu 100 til 300 danskar (2150 til 6500 íslenskar) og álíka við Arlanda í Stokkhólmi. Sólarhringsleiga á ódýrasta stæðinu við Gardermoen í Osló kostar jafnvirði 3300 íslenskra króna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Bílaumferð takmarkar flugumferð

Hvort draga myndi úr umferð út á Keflavíkurflugvöll ef verðin myndu hækka skal ósagt látið en í Stokkhólmi standa flugmálayfirvöld frammi fyrir töluverðum vanda vegna vinsælda einkabílsins meðal farþega á Arlanda flugvelli. Kolefnisútblásturinn frá þessari umferð er það mikill að brátt má ekki auka flugumferðina frá Arlanda fyrr en umhverfisvænni samgöngur, eins og lestir, hafa náð meiri útbreiðslu meðal farþeganna.