Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Isavia tekur við flugumferðarstjórn á flugvellinum í Kangerlussuaq
Fimmtudagur 28. maí 2015 kl. 14:37

Isavia tekur við flugumferðarstjórn á flugvellinum í Kangerlussuaq

Isavia hefur tekið við flugumferðarstjórn á flugvellinum Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði), vestan megin á Grænlandi (67. gráðu norður). Mittarfeqarfiit, sem rekur flugvellina á Grænlandi óskaði eftir því við Isavia að fyrirtækið tæki við stjórn flugumferðar á flugvellinum. Kangerlussuaq er eini flugvöllurinn á Grænlandi með reglubundið flug á þotum til Danmerkur og jafnframt eini flugvöllurinn sem er með flugumferðarstjórn. Hinir ellefu flugvellirnir á Grænlandi eru með tiltölulega stuttar flugbrautir og þar er ekki flugumferðarstjórn heldur er veitt flugupplýsingaþjónusta. 

Isavia hefur komið upp flugstjórnarhermi sem notaður er til þjálfunar flugumferðarstjóra og nú stendur yfir þjálfun íslensku flugumferðarstjóranna sem koma til með að vinna í flugturninum í Kangerlussuaq. Fyrst um sinn munu fjórir flugumferðarstjórar sinna þjónustunni en tveir bætast við í haust. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í Kangerlussuaq búa um 650 manns og flestir hafa atvinnu af flugvellinum eða tengdri starfsemi. Flugvöllurinn er mjög mikilvægur Grænlandi og nokkurs konar skiptistöð landsins. Þangað flýgur Air Greenland daglega frá Kaupmannahöfn á Airbus A330 þotu sem tekur 280 manns. Stuttu áður en þotan lendir koma Dash-8 vélar frá Nuuk, Illullisat og fleiri bæjum Grænlands með farþega sem ætla til Kaupmannahafnar og taka við farþegunum sem koma með þotunni. 

Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugleiðsögusviðs Isavia: 

„Isavia og forverar fyrirtækisins hafa frá árinu 1946 stýrt flugumferð í íslenska flugstjórnarsvæðinu sem nær yfir meiri hluta Grænlands frá 20.000 feta hæð og upp úr og því átt í mjög góðu samstarfi við bæði Grænland og Danmörku á sviði flugleiðsögu. Það er ánægjulegt að samstarfið hafi verið útvíkkað með þessum hætti og sýnir styrk Isavia og flugleiðsöguþjónustu félagsins á heimsvísu.“