Isavia tekur þrjá nýja rafbíla í notkun
Isavia hefur fengið afhenta þrjá nýja rafbíla sem notaðir verða innan flugvallarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Bílarnir eru af gerðinni Kia Soul EV og eru frá Bílaumboðinu Öskju. Þeir hafa drægni upp á 212 km við bestu aðstæður.
„Við erum spennt fyrir því að taka rafmagnsbíla í notkun við eftirlit innan flugvallarsvæðisins og teljum þá smellpassa við þarfir okkar. Auk þess mun notkun þeirra stuðla að minni útblæstri og þannig eru kaupin á þeim liður í því að minnka kolefnisspor starfseminnar á Keflavíkurflugvelli, en við höfum sett okkur markmið um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda umtalsvert í samræmi við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum," segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs Keflavíkurflugvallar.