Isavia svarar gagnrýni
- vegna breytingar á verslunar- og veitingarými á Keflavíkurflugvelli
Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um forval vegna útleigu á verslunar- og veitingarrými í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli vill Isavia koma eftirfarandi á framfæri:
Verslunar- og veitingarými í flugstöðinni er eitt það eftirsóttasta á Íslandi. Í því ljósi var ákveðið að nú þegar leigusamningar við núverandi rekstraraðila eru að renna út að gefa öllum áhugasömum aðilum jöfn tækifæri til þess að leigja þar verslunarrými. Að auki er gert ráð fyrir verulegri fjölgun farþega sem þýðir að stækka þarf rými til vopnaleitar og gera áætlanir um meiri þjónustu. Niðurstöður forvalsins verða kynntar í næstu viku. Þegar niðurstaða forvalsins hefur verið kynnt verða öll gögn sem því tengjast og ekki ríkir trúnaður um aðgengileg þeim sem eftir því kalla. Mikill fjöldi metnaðarfullra tillagna bárust í forvalinu.
Tilefni forvalsins og breytingar á brottfararými
Tilefni þess að ákveðið var að ráðast í breytingar á brottfararými í flugstöð Keflavíkurflugvallar og samhliða því bjóða út leigu á verslunar- og veitingarými eru í meginatriðum þessi:
Leigusamningar við núverandi rekstraraðila renna út um næstu áramót.
Vegna fjölgunar farþega er nauðsynlegt að gera breytingar á því svæði þar sem fram fer vopnaleit.
Fjölgun farþega í Keflavík hefur verið mikil á undanförnum árum og áætlanir gera ráð fyrir enn meiri aukningu sem kallar á meiri þjónustu.
Nánar um fyrirkomulag forvals
Þar sem Keflavíkurflugvöllur starfar á alþjóðlegum markaði var forvalið alþjóðlegt.
Við undirbúning forvalsins og gerð regla fyrir það var meginmarkmiðið að fyllsta jafnræðis yrði gætt á milli þátttakenda.
Til þess að vanda til verka voru fengnir alþjóðlegir sérfræðingar, breska ráðgjafarfyrirtækisins Concession Planning International sem er eitt virtasta fyrirtækið á sviði reksturs og skipulagningar smásölu á flugvöllum. Forvalsnefndin var svo skipuð einstaklingum með reynslu og þekkingu í rekstri flugvalla.
Forvalið fór fram í tveimur áföngum. Allir þátttakendur í hvorum áfanga fyrir sig fengu aðgang að sömu upplýsingum og gögnum.
Í báðum áföngnum forvalsins var tíu daga tímabil þar sem þátttakendum gafst kostur á að leggja fram fyrirspurnir og/eða gera athugasemdir. Til þess að gæta jafnræðis á milli þátttakenda var brugðist við þeim öllum í einu skjali sem allir þátttakendur fengu. Þarna komu engar athugasemdir fram er vörðuðu ferlið eða framkvæmd þess.
Í fyrri áfanga forvals var grunnhæfi þátttakenda metið. Stærsti hluti þátttakenda fór áfram yfir í seinni áfanga ferlisins.
Í seinni áfanga forvalsins fengu allir þáttakendur sem héldu áfram aðgang að upplýsingum um rekstur þeirra aðila sem nú eru starfandi í flugstöðinni. Þetta var gert til þess að tryggja að allir þáttakendur hefðu sömu upplýsingar í þeim tilgangi að tryggja jafnræði. Trúnaður ríkir á þessum upplýsingum.
Kynning á forvalinu
Isavia lagði strax í upphafi áherslu á að kynna forvalið vel fyrir áhugasömum rekstraraðilum sem og fjölmiðlum:
Til þess að kynna forvalið var boðað til kynningarfundar fyrir alla áhugasama og fjölmiðla.
Kynningarfundur um forvalið var haldinn 20. mars 2014 og var hann vel sóttur. Á honum honum var farið yfir framkvæmd og forsendur forvalsins.
Áætlað er að niðurstaða forvalsins muni liggja fyrir í fyrstu viku október og verður hún þá kynnt opinberlega. Í framhaldinu verða öll gögn sem varða forvalið og ekki eru bundin trúnaði gerð aðgengileg þeim sem þess óska.
Nánari upplýsingar verða veittar samhliða því þegar niðurstaða forvalsins verður kynnt í næstu viku, segir í tilkynningu frá Isavia.