Isavia styrkir björgunarsveitir um níu milljónir
Á landsþingi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sem haldið var föstudaginn 29. maí veitti Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia 25 björgunarsveitum um allt land samtals níu milljónir króna í styrki úr styrktarsjóði Isavia. Sjóðurinn hefur verið starfræktur frá árinu 2012 og hefur í fjögur skipti úthlutað til björgunarsveita nærri 40 milljónum króna. Markmið sjóðsins er að efla hópslysaviðbúnað á landinu öllu. Samstarf Isavia og björgunarsveita hefur verið farsælt um árabil en sveitirnar eru hryggjarstykkið í almannavarnarviðbúnaði á landinu, viðbúnaði sem er Isavia sem rekstaraðila flugvalla um allt land afar mikilvægur.
Hópslysaviðbúnaður kortlagður
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia sagði í ræðu sinni á þinginu meðal annars frá samantekt sem Isavia hefur gert á hópslysaviðbúnaði á landinu þar sem um 200 viðbragðsaðilar um allt land voru spurðir um búnað og getu sína til að sinna hópslysaviðbúnaði. Slík könnun hefur ekki verið gerð áður og er afar mikilvægt verkfæri ekki aðeins fyrir Isavia til að geta styrkt góð verkefni á réttum stöðum heldur einnig fyrir aðgerðastjórnendur á landsvísu sem geta notað samantektina til ákvarðanatöku í samræmingu stærri atburða.
Samantektin sýnir einnig að styrktarsjóður Isavia hefur lyft grettistaki hvað varðar viðbúnað ekki aðeins kringum flugvelli heldur um allt land. Áfram er þörf, ekki síst í ljósi aukins ferðamannastraums um allt land, þar vill Isavia vera í fararbroddi sem ábyrgt fyrirtæki í ferðaþjónustu og efla áfram hópslysaviðbúnað.