Isavia styður stærsta listaverk í heimi
Listagjörningurinn Stærsta listaverk í heimi verður sett upp á brottfarasvæðinu í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli í dag, fimmtudaginn 7. mars. Verkið er unnið af Ingvari Birni Þorsteinssyni í samvinnu við UNICEF, en hann hyggst tengja saman fólk alls staðar að úr heiminum í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook með það markmið að búa til stærsta listaverk í heimi.
Listagjörningurinn hófst 7. febrúar í Listasafni Reykjavíkur þegar forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, opnaði verkið og dró fyrstu pensilstrokuna. Gjörningurinn mun lifa á vefnum í 66 daga sem vísun til 66 ára starfsemi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.
Öllum farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er boðið að taka þátt í að skapa stærsta listaverk heims með því að fara inn á Facebook-síðu sína í gegnum tölvu hjá verkinu, sem standa mun á milli Nord og Landsbankans í brottafarsal, og tengjast listagjörningnum.
Að 66 dögum liðnum verður verkið málað og selt hæstbjóðanda. Allur ágóði rennur til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Aðstandendur verksins hafa sett sig í sambandi við heimsmetabók Guinness og vonast til þess að slá heimsmet með fjölda þátttakenda en til þess að það verði að veruleika þurfa rúmlega 200 þúsund manns að taka þátt í gjörningnum.