Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Isavia styður björgunarsveitir
Mánudagur 28. nóvember 2011 kl. 15:18

Isavia styður björgunarsveitir

Isavia ohf.  hefur stofnað sjóð til að styðja björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Tilgangur sjóðsins er að efla hópslysaviðbúnað björgunarsveita félagsins með sérstaka áherslu á hlutverk björgunarsveita í viðbúnaðaráætlunum áætlunarflugvalla. Markmið verkefnisins er að björgunarsveitir, og þar með viðbúnaðarkerfi landsins, séu ávallt sem best búnar þess að takast á við hópslys.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Verkefnið er til þriggja ára og ráðgerir Isavia að styrkja björgunarsveitir SL  um 5 milljónir króna árið 2011 og 8 milljónir árið 2012 og 2013, samtals um 21 milljón króna.
 
Stjórn sjóðsins er skipuð tveimur fulltrúum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og tveimur frá Isavia sem móta munu nánara fyrirkomulag og forsendur úthlutunar, meta umsóknir og gera tillögu um úthlutun til forstjóra Isavia.
 
Allar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar geta sótt um framlag úr sjóðnum.  Gert er ráð fyrir því að um 70% fjárins verði varið til björgunarsveita sem gegna hlutverki í flugslysaáætlunum við áætlunarflugvelli landsins og 30% til annarra björgunarsveita. Forsendur úthlutunar eru að fénu sé varið til þess að efla viðbúnað vegna hópslysa, t.d. til menntunar, búnaðar-  eða tækjakaupa.  Í sérstökum tilfellum er heimilt að styrkja önnur verkefni en vegna hópslysaviðbúnaðar en ekki er miðað við að fénu sé varið til almenns reksturs.
 
Verkefninu var hrint af stað með undirritun samkomulagsins um stofnun sjóðsins á fulltrúaráðsfundi SL sem haldinn var í Háskólanum í Reykjavík s.l. laugardag,  26. nóvember 2011.
 
Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia sagði að ávinningur félagsins af verkefninu byggðist á gagnkvæmum stuðningi og væri tvíþættur:
Björgunarsveitir SL gegni lykilhlutverki í öllum flugslysaáætlunum á áætlunarflugvöllum Isavia og því hagur að þær séu ávallt sem best í stakk búnar að takast á við verkefnið.
Björgunarsveitir gegni líka lykilhlutverki í öllum hópslysaviðbúnaði landsins og því hagur landsmanna og erlendra gesta sem um landið ferðast að að björgunarsveitir SL séu ávallt sem best búnar til þess að takast á við hópslys.
 
Á fundinum fór fram styrkúthlutun til Björgunarsveitarinnar Suðurnes í Reykjanesbæ fyrir öflugt starf á sviði hópslysaviðbúnaðar, en sveitin leikur lykilhlutverk í flugslysaviðbúnaði Keflavíkurflugvallar sem er langstærsti flugvöllur landsins.  Hlaut sveitin styrk að upphæð 800 þúsund krónur til kaupa á hitara fyrir hópslysatjald sem reynst hefur afar vel í starfsemi sveitarinnar.
 
Einnig var veittur styrkur að upphæð  600 þúsund krónur til Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar til útgáfu á rafrænu fræðsluefni um aðkomu að flugslysum og skipulag viðbragða við hópslysum. Efnið verður aðgengilegt björgunarsveitum á vef Björgunarskólans en það hentar einnig til þjálfunar starfsmanna Isavia og annarra viðbragðsaðila.
 
 

 
Efri myndin: Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia og Hörður Már Harðarson formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar handsala samning félaganna um styrktarverkefni Isavia.

Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia og Hörður Már Harðarson formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar ásamt fulltrúum björgunarsveitarinnar Suðurnes og  fulltrúi Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem veittu viðtöku styrkjum úr styrktarsjóði Isavia.