Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

ISAVIA ohf - Nýtt opinbert hlutafélag um flugþjónustu ríkisins tekur til starfa
Föstudagur 30. apríl 2010 kl. 15:49

ISAVIA ohf - Nýtt opinbert hlutafélag um flugþjónustu ríkisins tekur til starfa

ISAVIA ohf., nýtt opinbert hlutafélag um sameinaða starfsemi Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. tekur til starfa á morgun 1. maí 2010.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristján L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ýtti nýja félaginu úr vör ásamt Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra og kynnti nafn félagsins við athöfn með starfsfólki og gestum í veitingahúsinu Nauthól í dag föstudaginn, 30. apríl.
 
  

Með sameiningu félaganna er stefnt að enn frekari hagræðingu og skilvirkni í rekstri flugvallar- og flugleiðsöguþjónustu í landinu og lagður grundvöllur að nýrri starfsemi og þjónustu á sviði flugs og viðskipta. Fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur faglegt eftirlit með starfseminni.
 

Kristján L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði það marka tímamót og vera mikinn áfangi í flugsögu Íslands að öll flugvallaþjónusta, flugleiðsöguþjónusta og rekstur flugstöðva ásamt uppbyggingu og fjárfestingu í hvers kyns þjónustu hins opinbera á sviði flugmála sé nú komin undir einn hatt.
 

Ráðherrann reifaði þær breytingar sem undanfarið hafa orðið á yfirstjórn og skipulagi flugmála landsins til þess að mæta kalli tímans um breytt skipulag, skilvirkari stjórnsýslu og betri nýtingu fjármuna.
 

Félagið Flugstoðir ohf. var stofnað í ársbyrjun 2007 til þess að annast rekstrarþætti í þjónustu hins opinbera við flugstarfsemi sem áður voru í höndum Flugmálastjórnar Íslands. Félagið hefur annast uppbyggingu flugvalla og lendingarstaða á Íslandi annarra en Keflavíkurflugvallarásamt flugleiðsöguþjónustu sem Ísland veitir fyrir alþjóðlegt flug og innanlandsflug en stjórnsýsla og eftirlit eru eftir sem áður á ábyrgð Flugmálastjórnar Íslands.
 

Næsti áfangi var þegar ábyrgð á flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli og málefni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar voru færð frá utanríkisráðuneyti til samgönguráðuneytis í ársbyrjun 2008.
 

Þá varð enn einn áfanginn þegar Keflavíkurflugvöllur ohf., tók formlega til starfa í ársbyrjun 2009 til þess að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar ásamt þjónustu við flugrekendur og hagnýtingu flugvallarins í þágu öryggis- og varnarmála.
 

„Áfram heldur sagan og nýjasta skrefið stigum við á þessu ári þegar stofnað var nýtt opinbert hlutafélag í lok janúar um sameinaðan rekstur Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. Það félag tekur við hinum sameinaða rekstri á morgun, 1. maí.
 

Þetta er vissulega mikil og hröð þróun. En allt þetta hefur verið gert í því skyni að efla og bæta þjónustu, auka skilvirkni í stjórnsýslu og bæta nýtingu fjármuna. Þetta er og verður tilgangur þessara breytinga,“ sagði Kristján L. Möller.
 

Ráðherrann þakkaði fráfarandi forstjóra Flugstoða, Þorgeiri Pálsyni, sérstaklega fyrir störf sín og öllum starfsmönnum og stjórnum félaganna tveggja og óskaði þeim til hamingju með nafnið á nýja félaginu - ISAVIA ohf.
 

Starfsmenn ISAVIA og þriggja dótturfélaga þess eru samtals um 650. Forstjóri félagsins er Björn Óli Hauksson rekstrarverkfræðingur.
 

Stjórn félagsins skipa Þórólfur Árnason formaður, Arnbjörg Sveinsdóttir, Arngrímur Jóhannsson, Ásta Rut Jónasdóttir, Jón Norðfjörð, Ragnar Óskarsson og Rannveig Guðmundsdóttir.
 

Á myndinni að ofan eru f.v.: Þórólfur Árnason stjórnarformaður og Björn Óli Hauksson forstjóri ISAVIA ohf.