Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ísak Ernir ráðinn kosningastjóri
Miðvikudagur 23. apríl 2014 kl. 08:53

Ísak Ernir ráðinn kosningastjóri

– Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ

Ísak Ernir Kristinsson hefur verið ráðinn kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ vegna bæjarstjórnakosninganna í vor, sem fram fara 31. maí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum í Reykjanesbæ.  
 
Ísak Ernir er nýstúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og hefur undanfarin ár verið virkur í félagsmálum í Reykjanesbæ, einkum í gegnum störf sín fyrir Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem hann gengdi formennsku skólaárið 2012 - 2013. 
 
„Ég er mjög spenntur að fá tækifæri til að vinna með Árna Sigfússyni og öðrum öflugum frambjóðendum sem við höfum á að skipa“ segir Ísak í tilkynningunni en hann er sjálfur á framboðslista flokksins fyrir bæjarstjórnakosningarnar.
 
„Listinn sem við bjóðum fram er blandaður af reynslumiklu fólki úr bæjarmálunum, sem og nýju og fersku fólki og nokkuð mikið af ungu fólki. Það sem kom mér mest á óvart þegar ég byrjaði að skipta mér af stjórnmálum af alvöru fyrir um einu og hálfu ári síðan, var hvað unga fólkið í Sjálfstæðisflokknum fær mikil tækifæri til að taka að sér ábyrgð og verkefni og er tilbúið að leggja sig mikið fram. Mitt hlutverk sem kosningastjóri er t.d. að stýra kosningabaráttunni okkar og leiða hópinn áfram, ásamt öðru góðu fólki. Mér finnst það segja mikið til um hversu mikið unga fólkinu er treyst í okkar röðum“.
 
Ísak hefur þegar hafið störf en hans fyrsta verkefni var að undirbúa og sjá um hugmyndaþing frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins með bæjarbúum sem haldin var í Hljómahöll á dögunum. 
 
„Við vorum mjög ánægð með þann fjölda sem tók þátt en þó sérstaklega þær góðu hugmyndir sem íbúar höfðu fram að færa. Frá árinu 2002 hefur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ ávallt haldið málefnafund með íbúum til að gefa þeim tækifæri á að koma áherslum sínum á framfæri. Málefnunum hefur síðan verið fylgt eftir af meirihlutanum í bæjarstjórn og bæjarbúar sjá afraksturinn af því t.d. í skólamálum, umhverfismálum, þjónustumiðstöð og hjúkrunarheimili fyrir eldri borgara að Nesvöllum, í uppbyggingu Stapa, Rokksafns Íslands og Tónlistaskóla Reykjanesbæjar í Hljómahöll o.s.frv.,“ segir jafnframt í tilkynningu Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.
 
Næsta verkefni á borði Ísaks er svo að undirbúa formlega opnun á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins en hann segir sjálfur að mikið af góðu fólk séu að aðstoða sig við að undirbúa opnunina og að hann fái einnig mikinn stuðning frá sjálfstæðismönnum með sín daglegu kosningaverkefni.
 
„Við ætlum að opna kosningaskrifstofuna á 1. maí. Við munum frá þeim degi hafa opið daglega og bjóða upp á súpu í hádeginu alla virka daga en þar mun fólk hafa tækifæri til að hitta frambjóðendur og fara yfir málefnin. Síminn hjá mér er líka alltaf opinn ef fyrirtæki vilja fá okkur í heimsókn eða ef bæjarbúar vilja bjóða frambjóðanda í kaffi til sín. Ég hef þegar tekið við nokkrum slíkum beiðnum. Annars er frábær stemning í frambjóðendahópnum sem og sjálfstæðismönnum almennt finnst mér. Við erum að leggja lokahönd á málefnaáherslur okkar fyrir næsta kjörtímabil sem verða kynntar fljótlega. Þannig það er nóg af verkefnum framundan og ég er fullur tilhlökkunar, “ segir Ísak að lokum í tilkynningunni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024