Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Írsku rafstöðvabraskararnir á Suðurnesjum
Föstudagur 7. október 2005 kl. 00:39

Írsku rafstöðvabraskararnir á Suðurnesjum

Írar sem bjóða rafstöðvar til sölu og er leitað af lögreglu voru á ferð um Suðurnes í gær fimmtudag. Þeir stöðvuðu meðal annars blaðamann Víkurfrétta á götu á Vatnsnesveginum síðdegis í gær og buðu honum að kaupa rafstöð. Aðili sem var á sömu slóðum og blaðamaður sagði að vinnuveitandi sinn hafi keypt fjórar rafstöðvar af Írunum og „þær hafi verið bölvað drasl“. Víkurfréttir vita einnig til þess að Írarnir hafi verið á ferð um byggingasvæðið í Innri Njarðvík og boðið þar rafstöðvar til sölu.

Írarnir sem blaðamaður Víkurfrétta hitti voru á hvítum sendibíl, líklega af Hyundai-gerð. Þeir voru þrír í bílnum, byrjuðu á því að kalla út um glugga hvort menn vildu kaupa rafstöðvar. Þeir stöðvuðu síðan en virtust mjög varir um sig og voru fljótir í burtu þegar enginn á staðnum vildi kaupa rafstöðvar.

Samkvæmt Bylgjufréttum síðdegis í gær þá hafa kvartanir og að minnsta kosti ein kæra hafa borist bæði til lögreglunnar í Hafnarfirði og Rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík.

Kaupendur segja að um svikna vöru sé að ræða og hafa talið sig vera að kaupa díselrafstöðvar en síðar hefur komið í ljós að svo er ekki, heldur bensínsrafstöðvar og þar að auki ekki eins öflugar og kemur fram á umbúðunum. Lögreglan í Hafnarfirði leitar Íranna og Rannsóknarlögreglan varar fólk einnig við því að eiga nokkur viðskipti við þá. Svo virðist sem Írarnir séu í tveimur hópum og sést hefur til þeirra í Grafarvogi, Hafnarfirði, við Sundahöfn og víðar. Er þeirra nú ákaft leitað bæði af vonsviknum kaupendum og lögreglunni.

Myndin: Ekki er ljóst hvort rafstöðvarnar eru eins og þessi. Myndin er aðeins til skrauts.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024