Íranskur maður með falsað vegabréf svipti sig lífi í Keflavík
Íranskur karlmaður, sem í gær var úrskurðaður í einnar viku farbann, fannst látinn í Keflavík síðdegis í dag. Maðurinn er talinn hafa komið hingað til lands með Norrænu fyrir skömmu og hugðist fara með flugvél til Minneapolis á laugardag. Þá framvísaði hann fölsuðu dönsku vegabréfi og fékk því ekki að fara um borð í vélina. Í gærkvöld var hann úrskurðaður í farbann og síðan fluttur til Keflavíkur í morgun þar sem honum bauðst að gista og átti að tilkynna sig reglulega til lögreglu.Þegar hann gerði það ekki var farið að athuga um hann og kom í ljós að hann var látinn. Maðurinn er talinn hafa svipt sig lífi. Lögreglan veit enn engin deili á manninum en rannsókn stendur yfir. Lögreglan í Keflavík mun rannsaka lát mannsins, samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins í kvöld.