Innst inni elska allir að syngja
Emilía Björg fyrrverandi Nylon söngkona stofnar söngskóla á Suðurnesjum
„Ég vil að nemendur gangi út eftir tímann með bros á vör og fullir sjálfstrausts,“ segir Emilía Björg Óskarsdóttir, en í vor stofnaði hún Söngskóla Emilíu. Hún segir viðtökurnar hafa verið rosalega góðar og að fullt hafi verið á fyrsta námskeið hennar á innan við viku.
„Það var því greinilegt að fleira fólki fannst þetta vanta á Suðurnesjunum. Söngskóli Emilíu er fyrir alla. Innst inni elska allir að syngja. Við leitum í tónlist við hinar ýmsu aðstæður. Ég vinn mest með jákvæðni, að byggja upp sjálfstraust nemenda og láta þeim líða vel með sig sjálfa,“ segir Emilía.
Kolbrún Dís, Ingibjörg Svava, Guðbjörg, Drífa og Nanna Ísold æfa fyrir lokatónleikana.
Hún var meðlimur hljómsveitarinnar Nylon en árið 2007 sagði hún skilið við hljómsveitina. „Ég hef reynslu af söngkennslu svo ég ákvað að gera þetta bara sjálf. Námskeiðin hafa gengið rosalega vel. Ég er í góðu sambandi við foreldra og það skiptir mig máli.“
Emilía hefur nú verið búsett í Reykjanesbæ í þrjú ár og segist elska að búa hér. „Hér er allt til alls. Við gætum ekki hugsað okkur að búa annars staðar.“
Í sumar voru námskeiðin í boði fyrir krakka á grunnskólaaldri en í haust mun Emilía einnig bjóða upp á námskeið fyrir 16 ára og eldri. „Þar geta fullorðnir áhugasöngvarar komið og fengið kennslu í tækni. Ég býð einnig upp á einkatíma.“
Upplýsingar um skólann má finna á Facebook-síðu skólans „Söngskóli Emilíu“, en skráningar fara einnig fram þar. Þá talar Emilía einnig reglulega um skólann á snapchat undir nafninu emiliabj.