„Innsigling“ á Ásbrú
Vatnselgir hafa víða myndast í leysingunum í gær og í dag.
„Við í 1105 tölum ekki um innkeyrslu, heldur innsiglingu,“ segir Sigurbjörn Arnar Jónsson, íbúi á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hann tók meðfylgjandi mynd í dag í innkeyrslunni að fjölbýlishúsinu þar sem hann býr og birti á Facebook síðu Íbúa á Ásbrú.
Vatnselgir eru algengir þessa dagana vegna stíflaðra niðurfalla, smærri sem stærri pollar hafa myndast og gangandi vegfarendur verða margir votari en flesta aðra daga.
Veðurspáin á morgun hljómar ekki meira spennandi, en þá á að hvessa allmikið með ofankomu.