Innritun í skóla í nærsamfélagi
Flutningi lögheimilis þarf að vera lokið þegar skólahald hefst í ágúst
Foreldrar barna á grunnskólaaldri þurfa að innrita börn sín í hverfisskóla í því sveitarfélagi sem þau búa svo fljótt sem kostur er. Jafnframt þurfa þeir að flytja lögheimili sitt þangað. Hægt er að skrá börn í skóla og frístund þótt lögheimili hafi ekki verið flutt en flutningi lögheimilis þarf að vera lokið þegar skólahald hefst í ágúst. Öll börn fá skólavist í sínum hverfisskóla sé lögheimili skráð í viðkomandi sveitarfélagi. Frá þessu er greint í Grindvíkingi, fréttabréfi fyrir Grindvíkinga sem stjórnarráðið heldur úti.
Hægt er að tilkynna um flutning lögheimilis á Ísland.is
Margir foreldrar hafa nú innritað börn sín í leikskóla í því sveitarfélagi sem þau búa í. Skólaþjónusta Grindavíkurbæjar hefur óskað eftir því að sveitarfélög taki vel á móti umsóknum foreldra leikskólabarna úr Grindavík og að þær hljóti sömu afgreiðslu og íbúar með lögheimili í sveitarfélaginu fá. Fjölskyldur sem ekki verða komnar með fasta búsetu þegar líður á sumarið munu fá aðstoð og ráðgjöf við að finna leikskólapláss.
Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um leikskóla, grunnskóla og frístund í ýmsum sveitarfélögum á sérstöku vefsvæði. Vefurinn er enn í þróun og væntanlega munu fleiri sveitarfélög bætast við á næstunni. Þeir sem ekki finna sitt búsetu sveitarfélag á vefsvæðinu geta haft samband við skrifstofur sveitarfélagsins.
Sálfélagslegur stuðningur fyrir börn og ungmenni
Séð verður til þess að börn sem þurfa á sálfélagslegum stuðningi í skóla að halda fái hann áfram. Skólar og kennarar sem verða með börn frá Grindavík munu fá fræðslu og ráðgjöf um áföll barna og einkenni áfallastreitu. Þá býður Grindavíkurbær með stuðningi stjórnvalda upp á sálfélagslegan stuðning fyrir börn og ungmenni frá Grindavík. Um er að ræða námskeið, viðtöl og fjölskylduráðgjöf. Hægt er að sækja um sálfélagslegan stuðning fyrir börn og ungmenni á Ísland.is eða með því að senda tölvupóst á [email protected]