Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Innrétta rannsóknasetur í orkuvísindum á Ásbrú
Fimmtudagur 11. júní 2009 kl. 17:59

Innrétta rannsóknasetur í orkuvísindum á Ásbrú


Verktakar eru byrjaðir að breyta byggingu 910 við Grænásbraut á Ásbrú. Þar var síðast framhaldsskóli Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli en nú verður innréttuð aðstaða fyrir rannsóknasetur í orkuvísindum. Síðustu daga hefur ýmsu gömlu og ónothæfu verið mokað út, rafvirkjar eru að endurnýja raflagnir og þess verður ekki langt að bíða að málarar mæti í hús og máli það í ferskari litum en þekktust hjá Varnarliðinu.

Það eru Háskóli Íslands, Keilir, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, HS Veitur og HS Orka hf. sem á vormánuðum undirrituðu samstarfssaming um uppbyggingu rannsóknaseturs í orkuvísindum. Samstarfið felur í sér að byggja upp á Ásbrú aðstöðu til þess að stunda rannsóknir á sviði orkuvísinda, sérstaklega á sviði jarðvarma og annarrar endurnýjanlegrar orku og innlendrar orkuframleiðslu. Rannsóknarsetrið verður nýtt sem kennsluaðstaða í orkuvísindum við Keili, Háskóla Íslands og aðra innlenda skóla og kennslustofnanir. Jafnframt við rannsóknir á vegum stofnaðila sem og annara aðila.

Rannsóknarsetrið í orkuvísindum mun stórbæta alla aðstöðu til verklegrar kennslu og rannsókna í orkuvísindum á Íslandi.  Markmið samningsins er fjórþætt.  Í fyrsta lagi að stórefla aðstöðu á Íslandi til verklegrar kennslu og þjálfunar í verk? og tæknigreinum.  Í öðru lagi að koma upp öflugri aðstöðu fyrir verklegar rannsóknir í orkuvísindum.  Í þriðja lagi að efla samstarf akademíunnar og atvinnulífsins.  Í fjórða lagi að ná fram sparnaði vegna samlegðar sem fæst með því að færa ákveðnar rannsóknir samningsaðila undir eitt þak.

Starfssvið rannsóknarsetursins verða rannsóknir á beislun og nýtingu orku sem hægt er að virkja á Íslandi.  Megináhersla verður lögð á þróun á búnaði og aðferðum til nýtingar jarðvarma (háhita- og lághitavarma).  Rannsóknasetrinu verður skipt upp í fjórar sérhæfðar rannsóknarstofur sem munu vinna náið saman.  Starfssvið stofanna er: varma- og straumfræði, efnisfræði, mekatróník og efnafræði. Rannsóknasetrið verður, eins og áður segir, staðsett í húsnæði Keilis, Grænásbraut 910.

Efsta myndin:

Iðnaðarmaður gengur um ganga gamla framhaldsskólans á Ásbrú með ennisljós, enda verið að skipta út raflögnum í húsinu. Tíminn stendur kyrr á klukkunni á veggnum, en iðnaðarmenn hafa þó nauman tíma til að breyta húsnæðinu. Eftir nokkrar vikur verður komin starfsemi í húsið.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson




Það er árið 2009. Þessi vaskur er á leiðinni í geymslu. Hefði örugglega farið í ruslið árið 2007...



Gangar gamla A.T. MAHAN framhaldsskólans eru skreyttir með listaverkum nemenda. Þau munu hverfa á bakvið hvíta málningu.



Mekka körfuboltans á Íslandi var á Keflavíkurflugvelli. Þessi gamli íþróttasalur fær annað hlutverk í rannsóknasetrinu á Ásbrú. Körfurnar fara í geymslu.



Pólitískar ákvarðanir? Hér hafði fólk val um að taka vinstri og hægri beygjur!



Kennslustofa í skólanum. Hér verður skipt um rafmagn, sett nýtt á gólfin og allt málað.



Ófáum bílhlössum af gömlum innréttingum, amerískum raflögnum og öðru er ekið á haugana. Þó er reynt að nýta allt eins og hægt er við breytingarnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024