Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Innleiða stöðumat fyrir grunnskólanemendur af erlendum uppruna
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
mánudaginn 23. september 2019 kl. 09:36

Innleiða stöðumat fyrir grunnskólanemendur af erlendum uppruna

Innleiðing stöðumats fyrir nemendur af erlendum uppruna er að hefjast í grunnskólum Reykjanesbæjar. Í síðustu viku var haldið námskeið í Hljómahöll fyrir fulltrúa allra grunnskóla í Reykjanesbæ, Árborg og Hafnarfirði. Námskeiðið sóttu einnig aðilar frá Miðju máls og læsis, Menntamálastofnun, KÍ og Fellaskóla, sem komið hafa að verkefninu. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.

Fræðslusvið Reykjanesbæjar, fræðslu- og frístundaþjónusta Hafnarfjarðar og skólaþjónusta Árborgar hafa átt í samstarfi um þróun stöðumats fyrir nýja nemendur af erlendum uppruna sem eru tiltölulega nýkomnir til landsins. Verkefnið gengur m.a. út á það að styrkja nám, líðan og félagslega stöðu þessara nemenda í skólum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Með stöðumatinu er hægt að staðsetja nemendur og auðvelda þar með kennurum og skólastjórnendum að skipuleggja nám hvers nemanda út frá styrkleika hans og þörfum. Lagt er mat á fyrri þekkingu og reynslu sem og læsi og talnaskilning. Stöðumatið er sænskt að uppruna og hefur verið notað með góðum árangri þar.

Háaleitisskóli í Reykjanesbæ, Lækjarskóli í Hafnarfirði og Vallaskóli í Árborg hafa verið þátttökuskólar frá byrjun. Nú verður hins vegar unnið að því að koma stöðumatinu í framkvæmd í öllum skólum sveitarfélaganna þriggja, að sögn Kolfinnu Njálsdóttur deildarstjóra skólaþjónustu hjá Reykjanesbæ.

Stöðumat líka í leikskólana
„Við getum sagt að nú sé Stöðumatið loksins farið út í kosmosið eftir mikinn undirbúning og samvinnu faghópsins sem er skipaður sérfræðingum úr sveitarfélögunum þremur. Á döfinni er að fylgja því eftir. Meðal þess sem verður gert er að halda sambærilegt námskeið og við vorum með í Hljómahöll fyrir alla grunnskóla í Reykjavík í næsta mánuði. Svo erum við hvergi nærri hætt því faghópurinn er búinn að láta þýða svipað efni fyrir leikskóla. Því verður hrint af stað í vetur með Hjallatún sem þátttökuskóla Reykjanesbæjar í undirbúningnum,“ er haft eftir Kolfinnu á vef bæjarins.