Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Laugardagur 13. september 2003 kl. 13:04

Innheimti 178 milljónir ólöglega

Reykjanesbæ er óheimilt að leggja á sérstakt fráveitugjald samkvæmt niðurstöðu Úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir og greint er frá í Fréttablaðinu í dag. Hugsanlegt er að Reykjanesbær þurfi að endurgreiða álagt fráveitugjald fjögur ár aftur í tímann. Eldri greiðslur eru fyrndar. Endurgreiðslan myndi nema um 120 milljónum króna. Bærinn gæti til dæmis brúað bilið með því að hækka hið eiginlega og löglega holræsagjald.

Árni Sigfússon bæjarstjóri segir hins vegar óvíst hver viðbrögð bæjarins verða. "Það er erfitt að vera í því hlutverki að fá stöðugt úrskurði sem stangast á. En við munum að sjálfsögðu fara yfir þetta og tryggja að hér sé farið að lögum," segir bæjarstjórinn.

Sigurjón Kjartansson, íbúi í Reykjanesbæ, kærði fráveitugjaldið til úrskurðarnefndarinnar í nóvember 2000. Nefndin taldi þá að bænum væri heimilt að innheimta gjaldið. Sigurjón leitaði til Umboðsmanns Alþingis sem sagði gjaldið ólöglegt. Sigurjón óskaði þá eftir að úrskurðarnefndin tæki málið fyrir aftur og hefur nefndin nú úrskurðað að fráveitugjaldið sé ólöglegt. Reykjanesbær hefur frá árinu 1997 innheimt 6 þúsund króna árlegt gjald af öllum fasteignum vegna kostnaðar við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva. Sigurjón Kjartansson taldi gjaldið ekki vera þjónustugjald heldur skattheimtu sem Reykjanesbær hefði engar heimildir fyrir. Bærinn ætti að nota venjubundnar skatttekjur í uppbyggingu skólphreinsunarkerfisins. Frá árinu 1997 hafa verið innheimtar 178 milljónir króna í fráveitugjöld í Reykjanesbæ. Heildarframkvæmdum er ólokið. Um síðustu mánaðarmót stóð kostnaðurinn í 496 milljónum.

Reykjanesbær sagði gjaldið mundu verða fellt niður þegar stofnkostnaður væri að fullu greiddur: "Frá þeim tíma þegar rekstur hefst er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði greiddur af álögðu holræsagjaldi," sagði bærinn í svari til úrskurðarnefndar. Að sögn úrskurðarnefndar er ákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga skýrt hvað varðar setningu gjaldskráa. Gjald megi aldrei vera hærra en sem nemur kostnaði við veitta þjónustu: "Gjaldtaka af því tagi sem tengist í engu veittri þjónustu fær því ekki stoð í ákvæðinu." Fréttablaðið greinir frá.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024