Innbrotsþjófur flæmdur á brott
Tilkynning um innbrot í heimahús í Reykjanesbæ barst lögreglunni á Suðurnesjum fyrr í vikunni. Farið hafði verið inn um glugga í hjónaherbergi með því að spenna hann upp og var stormjárnið í honum ónýtt eftir atlöguna. Sá sem þarna var að verki hafði ekki erindi sem erfiði því einn heimilismanna kom heim þegar hinn óboðni gestur var að byrja að athafna sig.
Heyrði heimilismaðurinn hurð sem lá að sólpalli skellt og mann eða menn hlaupa sem fætur toguðu í burtu. Ekki hafði þeim sem inn braust gefist tími til að stela neinu af heimilinu en hafði þó náð að opna skáp og róta í honum þegar hann var truflaður við athæfið.