Innbrotsþjófar stöðvaðir, Súlan og skurðstofurnar
Í vikunni bar þetta hæst í fréttum á vf.is:
15. nóvember:
Sandgerðisbær hlaut Landgræðsluverðlaun
Sanderðisbær var í hópi verðlaunahafa þegar Landgræðsluverðlaunin 2010 voru veitt fyrir helgi við hátíðlega athöfn í Gunnarsholti. Aðstoðarmaður umhverfisráðherra, Hafdís Gísladóttir, afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfisráðherra. Verðlaunin að þessu sinni hlutu Ársæll Hannesson, Hermann Herbertsson, Ingólfur Helgason og Unnur Sveinbjörnsdóttir, Sandgerðisbær og Þjórsárskóli.
Landgræðsluverðlaunin eru veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. Með verðlaununum vill Landgræðslan vekja athygli á því mikilvæga starfi sem áhugafólk vinnur um land allt.
Á heimasíðu Landgræðslunnar er fjallað nánar um verðlaunahafana í ár. Þar segir eftirfarandi um Sandgerðisbær:
„Sandgerði var orðinn blómlegur útgerðarbær á þriðja áratug tuttugustu aldar. Eins og nafnið bendir til er jarðvegur þar sendinn og barst sandurinn frá sjó og upp á landið og olli miklum skaða á graslendi, fiskreitum og heima við hús íbúanna. Sandgræðsla Íslands girti foksvæðið af rétt fyrir 1940. Auk þess var reistur sjóvarnargarður sem varði byggðina og safnaði að sér sandi sem melfræi var sáð í. Þannig náðist að stöðva sandfokið. Vakning er í bæjarfélaginu fyrir umhverfismálum almennt og undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að græða upp land, sem hart var leikið af nýtingu og uppblæstri fyrri alda. Rofabörðum hefur verið lokað, melar græddir, gamlar malargryfjur hreinsaðar af drasli og græddar upp og tré gróðursett.
Unnið er að því að koma upp svokölluðum „Yndisgarði" á útivistarsvæði bæjarins, þar sem land var áður í tötrum. Umhverfisráð bæjarins hefur veitt íbúum og fyrirtækjum verðlaun fyrir fallega garða og snyrtilegt umhverfi. Íbúar Sandgerðis hafa tekið virkan þátt í þessu starfi gegnum tíðina, enda hefur umhverfi bæjarins tekið algjörum stakkaskiptum. Sandgerðisbær og Landgræðslan hafa um áratuga skeið átt farsælt samstarf í jarðvegs- og gróðurverndarmálum.“
16. nóvember:
Formaður GVS: „Þökkum fyrir að ekki fór verr“
Það hefur væntanlega farið um marga meðlimi Golfklúbbs Vatnsleysustrandar þegar fréttir bárust af því í gær að eldur væri í klúbbhúsi klúbbsins. Sem betur fer var það ekki sjálft klúbbhúsið sem varð eldi að bráð heldur lítill skúr sem stendur við klúbbhúsið og hefur verið notaður sem lagergeymsla og skrifstofa.
„Það voru ekki mikil verðmæti þarna inni og því eru tjónið ekki verulegt. Tryggingafélagið mun fara yfir þetta í dag og vonandi fáum við þetta bætt,“ segir Andrés Guðmundsson, formaður GVS, sem þakkar fyrir að ekki fór verr.
„Það voru athuglir vegfarendur sem sáu reyk leggja frá klúbbhúsinu og hringdu á neyðarlínuna. Mér er sagt að aðeins mínútuspursmál hafi verið á því að eldurinn næði að teygja sig yfir í klúbbhúsið og því þökkum við fyrir að ekki fór verr. Það hefði verið reiðarslag fyrir klúbbinn.“
Mikill uppgangur var hjá GVS fyrir tveimur árum þegar og var meðlimafjöldi kominn upp í 300 þegar mest lét. „Eftir að Setbergsklúbburinn var endurstofnaður fóru margir kylfingar aftur í sinn gamla klúbb og núna erum við um 230,“ segir Andrés en á stefnuskránni var að stækka völlinn upp í 18 holur. Formaðurinn segir að ekki verði farið í þær framkvæmdir á næstunni.
„Það var svolítil 2007 hugmynd að ætla sér að stækka völlinn upp í 18 holur en það er eitthvað sem við stefnum að í framtíðinni. Við ætlum að hlúa vel að þessum skemmtilega níu holu velli sem við erum með og núna erum við einnig með frábært æfingarsvæði. Það er góð stemmning innan klúbbsins og við horfum björtum augum til framtíðar.“
16. nóvember:
Kirkja til sölu á Suðurnesjum
Kapella ljóssins, kirkjubygging sem þjónaði varnarliðinu á sínum tíma og síðan sem skólabygging hjá Keili á Ásbrú, er til sölu ásamt nokkrum öðrum fasteignum sem Þjóðkirkjan á hér á Suðurnesjum.
Nokkrar fasteignir í eigu kirkjunnar verða settar á sölu til að mæta niðurskurði á framlögum til Þjóðkirkjunnar. Þetta eru auk Kapellu ljóssins að Keilisbraut 775, prestbústaðir að Skagabraut 30 í Garði og Ránargötu 1 í Grindavík. Þá eru tvær raðhúsaíbúðir við Breiðbraut 672 í Reykjanesbæ til sölu.
16. nóvember:
Hjálmar verðlaunaðir á degi íslenskrar tungu
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2010 voru afhent á hátíðardagskrá í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Auk þess voru veittar tvær sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra veitti Vigdísi Finnbogadóttur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2010. Þá fengu Hjálmar frá Keflavík viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Einnig fékk Möguleikhúsið viðurkenningu í tilefni dagsins.
Hljómsveitin Hjálmar var stofnuð í Keflavík 2004 og lagði frá upphafi áherslu á íslenskt afbrigði af reggí-tónlist, svokallað lopapeysu-reggí. Hljómsveitin hefur starfað síðan, með nokkrum hléum og ýmsum mannabreytingum, en ávallt við miklar vinsældir meðal ungra sem aldinna sem þyrpst hafa á ótal hljómleika Hjálmanna eða sótt í hljómdiska þeirra sem orðnir eru sex talsins.
Frá upphafi hefur það verið eins og sjálfsagt mál að allir söngtextar sem frá Hjálmum koma séu á íslensku. Þannig hafa þeir lagt fram drjúgan skerf til að byggja upp þá ímynd að meðal framsækinna íslenskra rokk- og dægurtónlistarmanna sé íslenska sjálfsagt mál, eða ætti að vera það, þó alltof margir aðrir virðist af einhverjum ástæðum þeirrar skoðunar að enskan ein hæfi slíkri tónlist. Af þessum sökum er það mat ráðgjafarnefndarinnar að
hljómsveitin Hjálmar verðskuldi það eindregið að hljóta viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu á degi íslenskrar tungu.
Viðurkenningarhafar fengu listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.
17. nóvember:
Nágranni kom í veg fyrir innbrot
Athugull nágranni við Baðsvelli í Grindavík hefur líklega komið í veg fyrir að brotist var inn hjá nágranna hans snemma í morgun. Grunsamlegar mannaferðir í götunni vöktu athygli nágrannans sem hafði samband við lögreglu. Þrír lögreglubílar voru sendir á vettvang. Voru tveir menn af erlendu bergi brotnir handteknir þar sem þeir höfðu verið að sniglast í kringum íbúðarhús í götunni. Í fórum þeirra fundust kúbein og fleiri tól. Gáfu þeir afar ótrúverðugar skýringar á ferðum sínum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Eins og fram hefur komið í fréttum hafa innbrot verið tíð að undanförnu á Suðurnesjum og er þetta tilvik vitni um hve árverkni íbúa skiptir miklu máli. Talsmaður lögreglunanr hvetur fólk til að hafa augun hjá sér og tilkynna strax til lögreglu verði það vart við grunsamlegar mannaferðir.
18. nóvember
Heilbrigðisráðherra gefur grænt ljós á einkarekstur á skurðstofum HSS
Heilbrigðisráðherra hefur gefið Heilbrigðisstofnun Suðurnesja grænt ljós til að leigja út skurðstofur HSS en tveir síðustu ráðherrar hafa verið á móti því. „Við munum nú leita allra leiða til að finna leigjendur að skurðstofuaðstöðunni hjá okkur en auðvitað er mikil vinna framundan í því að skoða samkomulagsgrundvöll og vernda hagsmuni,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
„Sérstaða okkar skurðstofu er sú að við gætum „leigt út“ sjúkrarými fyrir aðgerðir sem ekki er hægt að gera á læknastöðvum úi í bæ. Ég og fleiri höfum átt samskipti við núverandi heilbrigðisráðherra um þó nokkra hríð varðandi skurðstofurnar. Hann hefur sýnt málinu mikinn skilning. Við höfum líka háð harða varnarbaráttu um fullkomið skurðborð sem við höfum ekki verið tilbúin að láta frá okkur, eðlilega, en Landspítalinn hefur barist fyrir því að fá það yfir til sín. Nú hefur heilbrigðisráðherra gefið grænt ljós á að kanna með útleigu á skurðstofunum hjá okkur og um leið er útilokað að við setjum skurðborðið frá okkur,“ sagði Sigríður.
18. nóvember:
Vilja fíkniefnasala burt af bæjarhlaðinu
- Íbúar í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd skera uppherör gegn dópsölu
Íbúar í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd eru orðnir þreyttir á því að bæjarhlaðið hjá þeim sé notað til fíkniefnaviðskipta. Þeir hafa skorið upp herör gegn fíkniefnasölum og kaupendum með góðum árangri.
Brunnastaðahverfið er þyrping íbúðahúsa í friðsældinni á Vatnsleysuströnd. Íbúarnir hafa hins vegar orðið varir við aukna umferð um svæðið hjá sér þar sem ekin er hringleið í hverfinu. Í skjóli við húsin hefur svo sést til manna skiptast á pökkum og ljóst að þar er verið að eiga í fíkniefnaviðskiptum.
Íbúi á svæðinu, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir að í síðustu viku hafi lögreglan handtekið par á svæðinu sem hafi verið undir áhrifum fíkniefna. Þau hafi verið mætt á svæðið til að kaupa fíkniefni. Skömmu síðar hafi lögreglan einnig handsamað meintan sölumann. Lögreglan staðfestir þetta og segir að í kjölfar ábendingar um að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað hafi lögreglubíll í nágrenninu verið sendur á staðinn. Hafi lögreglumenn handtekið einstaklinga og er mál þeirra nú til meðferðar.
Gunnar Schram hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir það rétt viðbrögð að gera lögreglu viðvart þegar það telur sig verða vart við grunsamlegar mannaferðir. Það hafi sýnt sig fyrir fáeinum dögum þegar afkastamiklir innbrotsþjófar hafi verið stöðvaðir eftir ábendingu íbúa.
Sama á við þegar fólk hefur grun um fíkniefnamisferli. Betur sjái augu en auga og því tekur lögreglan við öllum ábendingum og vinnur út frá þeim.
Íbúinn sem Víkurfréttir ræddu við benti einnig á að á bakvið atvinnuhúsnæði á Vatnsleyuströnd hafi einnig fundist nokkur svokölluð hasslón sem séu gerð úr gosflöskum og notuð við reykingar á fíkniefnum. Það sé þekkt að ungt fólk fari í ökuferðir út fyrir bæinn og reyki hass í bílum í skjóli bygginga og myrkurs. Í samtali Víkurfrétta við lögregluna kom fram að í dag séu svipað margir teknir undir áhrifum fíkniefna í umferðinni á Suðurnesjum eins og undir áhrifum áfengis.
Íbúarnir í Brunnastaðahverfinu ætla að minnka ónæðið í sínu friðsæla hverfi með því að loka á hringaksturinn. Þannig vilja þeir koma í veg fyrir m.a. að heimreiðin eða bæjarhlaðið sé notað til að versla með fíkniefni. „Ég vaki oft um nætur og verð var við alla þá umferð sem fer hér um hlaðið,“ segir viðmælandi blaðsins og bætir því við að þessi umferð sé íbúunum á svæðinu óviðkomandi og þarna sé fólk ekki að njóta sveitasælunnar um hánótt.
18. nóvember:
Eigendur kaupi eignir gegn yfirtöku skulda
Rekstrarráðgjafar hafa undanfarið mótað tillögur um framtíð Fasteignar ehf og leggja þeir til að stjórn félagsins hefji undirbúning að því fyrir leigjendur að kaupa leigueignir gegn yfirtöku skulda. Er það sú leið sem helst er talin fær, samkvæmt því sem fram kom í máli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ sl. þriðjudag. Munu þau sveitarfélög sem hlut eiga í fasteign fjalla um þá tillögu á næstunni.
Ólíklegt er að Eignarhaldsfélagið Fasteign (EFF) standi að byggingaframkvæmdum við núverandi efnahagsástand og því endurmeta eigendur félagsins nú kosti þess að vera í félaginu. Stjórn félagsins hefur lagt til að skoðaðar verði leiðir til að semja við lánadrottna um lækkun útgjalda. Einnig að kannaðir verði kostir og gallar þess að sérhver eigandi taki yfir lán að baki eignum sem þeir leigja af EFF.
Árni sagði að um margt gæti þetta verið álitlegur kostur fyrir Reykjanesbæ sem gæti náð hagstæðum samningum við núverandi aðstæður þegar vextir væru í sögulegu lágmarki. Afborganir og rekstur gætu þannig verið umtalsvert lægri heldur en leigugreiðslurnar til Fasteignar, ólíkt því sem verið hefði árið 2008. „Við höfum ítrekað sagt að þetta félag og tilurð þess er ekkert trúaratriði,“ sagði Árni.
Mikil umræða varð á bæjarstjórnarfundinum um málefni Fasteignar og eignaraðild Reykjanesbæjar að félaginu. Stóð umræðan yfir á aðra klukkustund um þetta helsta bitbein andstæðra afla í bæjarmálapólitíkinni í Reykjanesbæ.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar lögðu fram bókun þar sem fram kom hörð gagnrýni á meirihlutann vegna þess sem þeir kalla „grafalvarlega stöðu“ Fasteignar sem blasi við, nú þegar ársreikningur félagsins liggur fyrir.
„Nú liggur fyrir að á sama tíma og sjálfstæðismenn fullyrtu um hagkvæmni Fasteignar og verulegan hagnað, þá sjá endurskoðendur fyrirtækisins ástæðu til þess að setja fyrirvara um rekstrarhæfi félagsins í áritun sinni við ársreikninginn fyrir árið 2009. Í framhaldi má spyrja sig hvort eitthvað hafi verið að marka skýrslu Capacent sem birtist skyndilega í miðri kosningabaráttu og þessi atriði voru hvergi nefnd,“ spyrja bæjarfulltrúar Samfylkingar í bókun sinni.
Árni tók sagði umrædda skýrslu unna af bæjarráði sameiginlega og því væri rangt að halda því fram að hún hefði verið kosningaplagg Sjálfstæðisflokksins. Hún hefði verið afrakstur sameiginlegrar vinnu minni- og meirihluta í bæjarráði til að fá botn í þessa hluti. Skýrslan hefði sýnt fram á að hagstæðara hefði verið fyrir Reykjanesbæ að vera í Fasteign á þeim tíma. „Hins vegar verðum við að þora að taka stöðuna á hverjum tíma,“ sagði Árni. Hann benti á að félagið hefði skilað hagnaði frá stofnun þess og væri í skilum við lánastofnanir. Hins vegar væri sú hætta fyrir hendi að einstakir eigendur hættu að geta greitt leigu til félagsins og benti á Álftanes og Háskólann í Reykjavík sem dæmi.
17. nóvember:
Gunnar Marel og Paddý´s hljóta Súluna
Gunnar Marel Eggertsson og veitingastaðurinn Paddy´s eru handhafar Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar fyrir árið 2010. Verðlaunin voru afhent í Listasal Duushúsa í gær á Degi íslenskrar tungu.
Gunnar Marel Eggertsson hlaut Súluna í ár fyrir smíðina á víkingaskipinu Íslendingi, siglinguna til Ameríku og þátttöku sína við uppbyggingu Víkingaheima í Reykjanesbæ.
„Víkingaskipið Íslendingur var smíðað á árunum 1994 til 1996 og er eftirgerð Gaukstaðaskipsins sem fannst í Noregi árið 1882. Gunnar Marel sá alfarið um smíðina og árið 2000 stýrði hann síðan skipi sínu vestur um haf, í kjölfar Leifs Eiríkssonar. Segja má að þessi skip hafi verið þotur víkingatímans þar sem þau gátu farið mjög hratt yfir. Dæmi eru um að menn hafi aðeins notað 3-4 daga á leiðinni milli Íslands og Noregs. Þetta hefur síðan sannast í þeim leiðöngrum sem Íslendingur hefur farið. Lagt var af stað frá Reykjavík á þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga 17. júní árið 2000 og komið til New York 5. október sama ár. Komið var við í 25 höfnum en vegalengdin sem Íslendingur sigldi í þessari ferð var um 4200 mílur. Í hverri höfn sem Íslendingur kom var mikið um að vera. Fjöldi manns tók á móti skipinu þar voru líka þjóðhöfðingjar og annað fyrirfólk og talið er að um 350.000 manns hafi komið um borð í Íslending í þeim höfnum sem heimsóttar voru. Níu árum eftir að Gunnar sigldi af stað í frægðarför sína, þann 17. júní árið 2009, var opnuð sýning um skipið og sögu þess í glæsilegri nýbyggingu; Víkingaheimum. Þar geta gestir skoðaða skipið og einnig hluta af frægri víkingasýningu Smithsonian stofnunarinnar í Bandaríkjunum sem var einmitt opnuð árið 2000 til að minnast landafunda Leifs Eiríkssonar. Gunnar Marel tók virkan þátt í uppbyggingu Víkingaheima og fyrir þá vinnu, smíði skipsins og siglinguna sjálfa, vill Reykjanesbær þakka honum með Súlunni í ár,“ segir í umsögn frá Reykjanesbæ um verðlaunin.
Veitingastaðurinn Paddy''s hlaut fyrirækjasúluna í ár fyrir eflingu tónlistarlífs í Reykjanesbæ með því að skapa ungu tónlistarfólki tækifæri til flutnings tónlistar.
„Frá stofnun Paddy''s hafa eigendur staðarins lagt áherslu á lifandi tónlist og þeir ásamt ýmsum ráðgjöfum hafa skipulagt tónleika og aðra menningarviðburði. Þetta hefur verið unnið af hugsjón, áhuga og ástríðu til listarinnar og oftast í sjálfboðavinnu. Markmið fyrirtækisins og þeirra listrænu ráðgjafa hefur verið að skapa vettvang fyrir listafólk til að koma sköpun sinni á framfæri. Margir tónlistarmenn hafa stigið sín fyrstu skref á þeim vettvangi og má þar nefna systkinin úr KlassArt sem allir landsmenn þekkja í dag. Tónleikarnir á Paddy´s hafa verið haldnir með tvennt að leiðarljósi. Að gefa ungum og upprennandi hljómsveitum á Suðurnesjum tækifæri til að koma fram og bjóða hljómsveitum af höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar frá, til tónlistarunnenda í Reykjanesbæ. Ýmsar hátíðir hafa verið haldnar s.s. Aftan Rokk, Aftan Festival og Rockville Hátíðin sem fyrst var haldin aftur árið 2005 en hefur síðan verið Ljósanæturhelgina en síðan verið haldin árlega. Á þessum ýmsu tónleikaröðum á Paddy''s hafa verið atriði sem spanna alla flóru tónlistar, allt frá því að vera þjóðlegur kórsöngur til argasta rokks. Skipuleggjendur tónleikahalds á Paddy''s hafa alltaf lagt áherslu á að vera með puttann á púlsinum og færa tónlistarunnendum nýjar og ferskar hljómsveitir. Margar landsþekktar rokkhljómsveitir hafa komið fram á hátíðinni á Paddy´s og yfirleitt á þeim tíma sem þær eru á jaðri þess að verða landsþekktar. Þar að auki hafa margar ungar hljómsveitir úr Reykjanesbæ komið fram á hátíðinni og sumar jafnvel konar í „áskrift", segir í umsögn um Paddy´s.
19. nóvember:
Enginn halli á næsta ári
Enginn halli verður á rekstri A-hluta bæjarsjóðs Grindavíkurbæjar samkvæmt markmiðum við gerð fjárhagsáætlunar sem kom til fyrri umræðu í bæjarstjórn nú í vikunni. Sömuleiðis er steft á hallalausan rekstur árið 2012.
Fjárhagsáætlun 2011 og þriggja ára áætlun 2012-2014 var til fyrri umræðu í vikunni. Helstu markmiðin eru þau að á næsta ári verði enginn rekstrarhalli, en heimilt verði að nýta vaxtatekjur hitaveitusjóðsins til rekstrar. Veltufé frá rekstri nægi að minnsta kosti til afborgana lána. Árið 2012 verði enginn rekstrarhalli. Heimilt verði að nýta allt 50% af vaxtatekjum hitaveitusjóðsins til rekstrar.
Þá verði rekstur sveitarfélagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBIDA) í jafnvægi árið 2013, þ.e. engar vaxtatekjur verði nýttar til rekstrar, eingöngu til fjárfestinga og/eða uppgreiðslu lána. Árið 2014 er svo stefnt á að rekstur sveitarfélagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir skili 15% framlegð.