Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Innbrotafaraldur á Suðurnesjum
Þriðjudagur 23. september 2003 kl. 14:22

Innbrotafaraldur á Suðurnesjum

Innbrotafaraldur gekk yfir Suðurnes í fyrrinótt. Innbrot og skemmdarverk voru framin um öll Suðurnes. Talsverðum verðmætum var stolið hjá Þroskahjálp á Suðurnesjum. Lögreglan leitar þjófanna og hvetur fólk til að hafa augun hjá sér og hvetur til nágrannavaktar, þar sem fólk tekur sig saman um að fylgjast með eigum.

 

Fyrsta útkallið kom um kl. 02:30 aðfararnótt mánudags þegar tilkynnt var um rúðubrot og tilraun til innbrots í verslunina Vökul við Sandgerðishöfn. Ekki var að sjá að einhverju hefði verið stolið. Rétt fyrir kl. 06 í gærmorgun var einnig tilkynnt um innbrot í húsnæði Þroskahjálpar. Þegar starfsmaður sem sér um ræstingar kom til vinnu hafði útihurð verið brotin upp og hurðir inn eftir öllu húsinu verið sparkaðar upp. Þaðan var stolið fartölvu, stafrænum ljósmyndabúnaði, rótað í skjölum og einhverjum fjármunum stolið. Að sögn Gísla Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Þroskahjálpar á Suðurnesjum, var stolið gjafafé sem barst eftir lokun banka síðasta föstudag og var í læstum skáp. Einnig var stolið úr söfnunarbauk. Iðnaðarmaður vann að því í gær að gera við hurðir og einnig var traustum skáp komið fyrir undir trúnaðarskjöl sem rótað hafði verið í og voru í læstum skjalaskáp.

Skömmu fyrir kl. 08 í gærmorgun var einnig tilkynnt um tilraun til innbrots í Bílrúðuþjónustuna í Grófinni. Þar hafði verið brotin rúða við hurð. Á svipuðum tíma var tilkynnt um innbrot í Garðinum. Þar var farið inn í fiskverkun Karls Njálssonar. Þar voru skemmdir unnar en ekki miklu stolið. Þá var tilkynnt um innbrot í Ofnasmiðju Suðurnesja. Þar hafði þjófurinn á brott með sér öryggismyndavél.

Á sunnudagskvöldið var tilkynnt um innbrot í bifreið við Hópsneshúsin í Grindavík þar sem hljómtækjum var stolið úr bílnum.

Ekkert framangreindra mála hefur verið upplýst, en hins vegar hefur vöskum lögreglumönnum í Keflavík tekist að upplýsa hluta þeirra afbrota sem áttu sér stað um þar síðustu helgi. Innbrot og þjófnaður úr versluninni Hólmgarði hefur verið upplýstur. Tveir aðilar sem handteknir voru vegna þess máls hafa hins vegar ekki getað vísað á þýfið, tóbak að andvirði um 100 þúsund krónur. Þá hafa innbrot og skemmdarverk í Heiðarskóla og á gæsluvöllinn við Heiðarból einnig verið upplýst. Þar áttu unglingar í hlut. Einn af þessum aðilum hefur áður komið við sögu lögreglunnar.

Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Keflavík, sagðist í samtali við Víkurfréttir biðja fólk um upplýsingar, jafnframt því sem fólk er hvatt til að ganga vel frá eigum sínum. Ennþá eru innbrot og skemmdarverk óupplýst. Jóhannes sagði lögregluna bregðast við með auknu eftirliti. Hins vegar sé það erfitt, þar sem afbrotin eru að eiga sér stað um allan Reykjanesskagann en ekki í einu ákveðnu hverfi. Því sé ástæða til að hverja fólk til nágrannavaktar, að íbúar taki sig saman um að verjast innbrotum eða skemmdarverkum með því að líta eftir eigum hvers annars.

 

Myndin: Iðnaðarmaður vinnur að lagfæringum á hurð við hús Þroskahjálpar á Suðurnesjum í gærdag. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024