Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Innbrot í Myllubakkaskóla
Föstudagur 25. apríl 2003 kl. 14:15

Innbrot í Myllubakkaskóla

Á fimmtudag var tilkynnt um innbrot í Myllubakkaskóla en líklega hefur verið farið þar inn um páskahelgina. Farið var víða um skólann og myndverk nemenda eyðilögð og litum klínt á veggi utandyra. Töluverður erill var hjá Lögreglunni í Keflavík í síðustu viku og nokkuð margir voru kærðir vegna umferðarlagabrota. Einn ökumaður var stöðvaður á Grindavíkurvegi á 141 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km.

Dagbók Lögreglunnar í Keflavík

Mánudagurinn 21. apríl
Kl. 7:03 kom á lögreglustöðina maður sem hafði verið sleginn í andlitið á skemmtun í Félagsheimilinu Stapa um kl. 02:00 um nóttina, hann var rispaður og bólginn í andliti. Ekki er vitað hver árásarmaðurinn var.

Kl. 17:59 var tilkynnt um innbrot í bifreið í Keflavík utan við heimili eiganda hennar. Radarvara af gerðinni Whistler svörtum að lit var stolið. Ekki er vitað hver þarna var að verki.

Þriðjudagurinn 22. apríl
Kl. 7:11 var tilkynnt til lögreglunnar um skemmdarverk á báti við Áhaldahúsið í Grindavík. Þar hafði búkkum verið kippt undan 20 tonna báti svo hann féll á aðra hliðina í jörðina.

Kl. 8:24 var tilkynnt um rúðubrot í Gerðaskóla í Garði um páskana. Þar voru brotnar þrjár stórar rúður og þrír glerhleðslukubbar.

Kl. 10:30 var tilkynnt til lögreglunnar að brotist hefði verið inn í bátinn Sigurfara í Njarðvíkurslipp og þaðan stolið tveimur tölvuskjám.

Kl. 10:56 var tilkynnt um skemmdarverk á nýlegri bifreið þar sem hún stóð við Heiðarbraut í Keflavík. Hnullungs grjóti hafði verið skrapað eftir húddlokinu og skilið þar eftir. Húddlokið var rispað að endilöngu. Ekki er vitað hver þarna var að verki og óskar lögreglan eftir sjónarvottum.

38 ökumenn voru kærðir fyrir að nota ekki bílbelti við aksturinn og 7 ökumenn bifreiða kærðir fyrir að nota farsíma við aksturinn, án handfrjáls búnaðar.

Kl. 23:08 var ökumaður fólksbifreiðar kærður fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut við Vogastapa eftir að hafa mælst á 110 km hraða.

Kl. 23:47 var ökumaður fólksbifreiðar kærður fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut, rétt austan við Innri-Njarðvík, eftir að hafa mælst á 141 km hraða.

Miðvikudagurinn 23. apríl
Kl. 9:20 var tilkynnt um útafakstur á Flugvallarvegi. Hafði ökumaður misst þar stjórn á bifreið sinni og var hann fluttur á Heilbrigðisstofnun en hann mun að sögn læknis líklega hafa fengið flogakast. Fékk hann að fara heim að skoðun lokinni en bifreiðin var fjarlægð með dráttarbifreið.

Kl. 13:20 var tilkynnt um innbrot í Sandgerði. Þar hafði verið farið inn um glugga og tekið myndbandstæki. Einnig höfðu skemmdir verið unnar á parketi. Mun innbrotið hafa átt sér stað á tímabilinu frá 16/4 til 22/4 sl.

Kl. 15:08 var tilkynnt um umferðaróhapp á Bakkastíg í Njarðvík. Þar hafði bifreið verið ekið utan í vegkant og síðan á ljósastaur. Ökumaður slapp ómeiddur en fjarlægja þurfti bifreiðina með dráttarbifreið.

Kl. 16:17 var tilkynnt um umferðaróhapp við Hringbraut 92, Keflavík. Þarna hafði verið ekið á kyrrstæða og mannlausa bifreið og ætluðu aðilar að gera upp tjónið sín á milli.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Grindavíkurvegi og var sá sem hraðar ók á 141 km hraða.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Kirkjuvegi þar sem hámarkshraði er 30 km. Var sá sem hraðast ók á 60 km hraða.

Einn ökumaður var kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti.

Kl. 21:32 var tilkynnt um umferðarslys á gatnamótum Njarðarbrautar og Borgarvegar í Njarðvík. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var fluttur á HSS til aðhlynningar. Hann hafði hlotið heilahristing og skurð á höfði. Önnur bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið.

Á kvöldvaktinni var einn ökumaður kærður fyrir hraðakstur á Grindavíkurvegi. Mældur hraði var 114 km þar sem hámarkshraði er 90 km.

Fimmtudagurinn 24. apríl
Kl. 3:29 var mjög ölvuðum manni ekið til síns heima frá Duusgötu í Keflavík en tilkynnt hafði verið um hann þar sem hann átti erfitt með gang.

Kl. 3:45 var mjög ölvaður maður vistaður í fangaklefa vegna ölvunar á almannafæri.

Á næturvaktinni voru útköll í heimahús þar sem kvartað var undan hávaða frá gleðskap. Einnig voru útköll þar sem kvartað var undan hávaða frá ölvuðu fólki utan við heimili. Einn ökumaður var kærður fyrir að vera með of marga farþega í bifreið sinni.

Kl. 15:38 var tilkynnt um dreng sem hafði komið alblóðugur inn í Biðskýlið í Njarðvík. Fóru lögr. og sjúkrabifreið á staðinn. Þarna hafði 8 ára drengur verið að ganga yfir gangbrautin með glerkrús í hendinni. Datt hann og brotnaði krúsin og skarst hann illa á hendi. Hljóp hann síðan inn í Biðskýlið. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem gert var að sári hans.

Kl. 15:55 var tilkynnt um umferðaróhapp við Orkuna, bensínstöð á Fitjum í Njarðvík. Þar hafði bifreið verið ekið á bensíndælu og fór brot úr dælunni á aðra bifreið sem dældaðist.

Á kvöldvaktinni voru tveir ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Annar þeirra var á Njarðarbraut í Njarðvík þar sem hann var mældur á 97 km þar sem hámarkshraði er 60 km. Hinn var mældur á Grindavíkurvegi á 113 km þar sem hámarkshraði er 90 km. Ökuskírteini ökumannsins var einnig útrunnið. Eigendur tveggja bifreiða voru boðaðir með bifreiðar sínar til skoðunar vegna vanrækslu á endurskoðun. Einn ökumaður var kærður fyrir ólöglega lagningu með því að leggja bifreið sinni upp á gangstétt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024