Innbrot á heimili í Keflavík
Nokkur erill var hjá Lögreglunni í Keflavík um helgina og töluvert var um hraðakstur ökumanna. Á föstudag var ökumaður bifreiðar kærður fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km. en ökumaðurinn mældist á 115 km. hraða. Á föstudagsmorgun var lögreglu tilkynnt um að rúður hafi verið brotnar í iðnaðarhúsum við Njarðarbraut í Njarðvík, en engin ummerki voru um innbrot. Tilkynnt var um búðarhnupl í verslun Samkaupa í Njarðvík en þar hafði ung stúlka verið staðin að hnupli. Seinnipartinn á föstudag var tilkynnt um innbrot í einbýlishús í Keflavík en heimilisfólk hafði verið í burtu í sumarhúsi. Spenntur hafði verið upp gluggi og ýmsum munum stolið, s.s. myndbandstæki, skartgripum, myndavél og myndskanna. Málið er í rannsókn lögreglunnar í Keflavík. Á laugardagsnóttina var bifreið stöðvuð á 128 km. hraða á Reykjanesbraut þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km. Þegar lögreglumenn ræddu við manninn fannst áfengisþefur úr vitum hans og var hann færður á lögreglustöð til skýrslutöku.
Dagbók lögreglunnar í Keflavík
Föstudagurinn 26. september 2003.
Einn aðili kærður fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut. Mældist hraði hans 115 km. þar sem leyfður hámarkshraði er 70 km.
Einn var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt með því að leggja vörubifreið í íbúðarhvefi.
Kl. 10:39 var tilkynnt til lögreglu að rúður hafi verið brotnar í tveimur iðnarhúsum við Njarðarbraut í Njarðvík. Engin merki voru um að farið hafi verið þar inn.
Kl. 10:46 var óskað eftir lögreglu í verslunina Samkaup í Njarðvík. Þar hafði ung stúlka verið staðinn að hnupli.
Kl. 16:32 var tilkynnt til lögreglunnar í Keflavík innbrot í einbýlishús í Keflavík. Heimilisfólk hafði verið burtu í sumarhúsi. Spenntur hafði verið upp gluggi og teknir ýmsir munir, myndbandstæki myndavél, skanna og skartgripum. Málið er í rannsókn.
Kl. 23:58 höfðu lögreglumenn afskipti af unglingi sem var á ferð í Heiðarholti. Tekin var af honum einn bjór.
Laugardagurinn 27. september 2003 næturvakt
Kl. 00:10 fóru lögreglumenn í útivistarátak með starfsfólki félagsþjónustunnar í Sandgerði . Höfð voru afskipti af 5 ungmennum sem voru færð í íþróttarhúsið í Sandgerði þar sem starfsfólk félagsþjónustunnar tók við þeim og hafði samband við foreldra þeirra sem sóttu þau.
Kl. 01:16 var bifreið stöðvuð á Reykjanesbraut í Hvassahrauni vegna of hraðs aksturs. Mældur hraði var 111 km þar sem leyfður hraði er 90 km.
Kl. 04:02 var bifreið stöðvuð vegna hraðakstur á Reykjanesbraut ofan Ytri-Njarðvíkur mældur hraði 128 km þar sem leyfður hraði er 90 km. Í viðræðum við ökumann þá fannst áfengisþefur leggja frá vitum hans. Hann var færður á lögreglustöð til skýrslutöku.
Kl. 05:40 Var ökumaður stöðvaður fyrir of hrana akstur á Sandgerðisvegi á Miðnesheiði. Mældur hraði var 112 km þar sem leyfður hraði er 90 km.
Á dagvaktinni voru 3 ökumenn kærðir fyrir ofhraðan akstur, sá sem hraðast ók var á 122 km hraða þar sem leyfður hraði er 90 km.
Sunnudagur 28. september 2003.
Kl. 09:45 var tilkynnt til lögreglu að brotin hafi verið upp hurð í húsnæði Golfklúbbsins á Vatnsleysuströnd. Engu var stolið þar.
Kl. 13:33 var óskað eftir lögreglu strax að íbúðarhúsi í Njarðvík þar sem "handrukkari" væri mættur með kylfu. Lögrm fóru á staðinn og var "handrukkarinn" handtekinn og færður til yfirheyrslu á lögreglustöð. Kylfan var tekin í vörslu lögreglu. Ekki hafði komið til átaka er lögreglan kom á staðinn.
Á dagvaktinni var einn ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut er hann ók á 113 km hraða, þar sem leyfður hraði er 90 km.
Kl. 15:00 tilkynnti íbúi í Grindavík til lögreglunnar að s.l. nótt um kl. 04:30 hafi hann verið heima hjá sér vakandi ásamt heimilisfólki, þá hafi hann orðið þess áskynja að einhver var með vídeóvél utan við eldhúsgluggann og beindi vélinni inn um gluggann og var að taka mynd. Hann sá ekki hver var þarna á ferð, en hann hafi verið í köflóttri skyrtu. Málið er í rannsókn og er óskað eftir vitnum.
Kl. 16:18 var tilkynnt til lögreglunnar að minkagildrum hafi verið stolið þar sem þeim var lagt við Ósabotna í Höfnum. Ekki er vitað hver þarna var að verki. Sjónarvottar gefi sig fram við lögregluna.