Innbrot, ölvunarakstur og hjólbarðar eyðilagðir
Ekki var mikið um útköll hjá Lögreglunni í Keflavík um helgina. Rétt eftir miðnætti á aðfararnótt laugardags var ökumaður stöðvaður á Reykjanesbraut grunaður um ölvun við akstur. Síðar um nóttina var lögreglu tilkynnt um að búið væri að brjótast í versluninni Tölvuþjónusta Vals og ýmsum tölvuhlutum stolið, s.s. minniskortum, skjákortum, hörðum diskum og tölvumúsum. Lögreglan óskar eftir vitnum við að upplýsa málið. Á sunnudagskvöld var lögregla kvödd að verbúðinni Röstinni þar sem skorið hafði verið á hjólbarða bifreiðar sem þar stóð fyrir utan. Lögreglan óskar eftir aðstoð vitna við að upplýsa málið.
Dagbók Lögreglunnar í Keflavík
Laugardagurinn 11. október 2003.
Kl. 00:49 stöðvaði lögreglan akstur ökumanns bifreiðar á Reykjanesbraut, sem grunaður er um að hafa ekið undir áhrifum áfengis.
Kl. 03:08 komu lögreglumenn að þar sem búið var að brjóta stóra rúðu Tölvuþjónustu Vals, Hringbraut 92b, Keflavík. Hinum ýmsu tölvuíhlutum, minniskortum, skjákortum, harðdiskum, örgjöfum og tölvumúsum var stolið og einnig smápeningum. Ekki er vitað hver þarna var að verki og óskar lögreglan aðstoðar vitna að upplýsa málið.
Kl. 22:24 var tilkynnt til lögreglu að ekið hafi verið á vinstri framhurð blárrar Toyota bifreiðar, þar sem hún var kyrrstæð og mannlaus á bifreiðastæði við Bláa-Lónið í dag á milli kl. 17:30 og 19:30. Tjónvaldur fór af staðnum án þess að láta vita af sér. Dæld er í framhurðina og óskar lögreglan eftir sjónarvottum að árekstrinum.
Á ellefta tímanum var ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur á Garðvegi, hann ók á 114 km hraða þar sem leyfður hraði er 90 km.
Kl. 23:33 varð árekstur á Hafnargötu í Keflavík með þeim hætti að ökumaður bifreiðar var að aka framúr annarri bifreið þar sem framúurakstur er bannaður og rakst utan í hana og síðan ók hann á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt.
Sunnudagurinn 12. október 2003.
Kl. 14:02 var lögregla kvödd að húsnæði Sjálfsbjargar við Fitjabraut í Njarðvík en þar höfðu tvær rúður verið brotnar á vesturhlið hússins.
Kl. 20:04 var lögreglan kvödd að Hrannargötu 5, Keflavík, sem er verbúðin Röstin. Þar hafði einhver skorið göt á alla fjóra hjólbarða bifreiðar, sem hafði verið geymd þar utan við. Ekki er vitað hver þarna var að verki og óskar lögreglan aðstoðar vitna við að upplýsa skemmdarverk þetta.