Innanlandsflug hafið frá Keflavík
Flogið fjórum sinnum í viku
Á mánudag fór fyrsta áætlunarflug vetrarins milli Akureyrar og Keflavíkur á vegum Air Iceland Connect. Þar með geta Norðlendingar flogið til Keflavíkurflugvallar að morgni og þaðan út í heim. Á sama hátt geta ferðamenn komist beint út á land eftir komuna til landsins.
Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að ferðirnar verði í boði fjórum sinnum í viku. „Eftirspurn Íslendinga eftir þessu flugi hefur verið mikil en einnig verður eftir sem áður lögð áhersla á að ná til erlendra ferðamanna. Fjölgun þeirra á því tímabili sem þetta flug verður í boði hefur verið gífurleg og mikilvægt er fyrir eðlilega þróun ferðaþjónustunnar að þeir ferðist sem víðast um landið. Beint flug frá Keflavík gerir þeim það mun auðveldar en ella,“ segir í tilkynningu Air Iceland Connect.