Ingvar nýr tæknistjóri Hljómahallar
Ingvar Jónsson hefur verið ráðinn sem tæknistjóri Hljómahallar. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Ingvar lauk B.Sc gráðu í tæknifræði frá HR um áramót 2008/2009 og er langt kominn með mastersnám við Álaborgarháskóla í Danmörku í hljóðverkfræði (e. acoustic).
Frá árinu 1986 hefur Ingvar verið sjálfstætt starfandi hljóðmaður/hljóðtæknimaður og sinnt fjölda verkefna eins og að vera aðalhljóðmaður á heimsferðalagi Sigur Rósar, hönnun og ráðgjöf við hljóðvist í Bergi, einum sala Hljómahallarinnar og ýmis verkefni með öllum helstu dægurlagahljómsveitum Íslands.
Ingvar starfaði lengi fyrir Exton ehf sem sem verkefnastjóri, hljóðmaður og hljóðtæknimaður. Þá var hann tæknistjóri hljóðstjórnar Hörpu í þrjú ár. Ingvar kemur til Hljómahallar frá verkfræðistofunni Mannvit en þar kom hann að hönnun, ráðgjöf og hljóðmælingum við ýmis verkefni sem snerta hljóð og hljóðvist.