Ingólfur Bárðarson látinn
Ingólfur Bárðarson rafverktaki og fyrrv. forseti bæjarstjórnar Njarðvíkur lést á Landspítalanum við Hringbraut 27. desember sl. 74 ára að aldri. Ingólfur fæddist í Njarðvík, sonur Bárðar Olgeirssonar og Árnýjar Eyrúnar Ragnhildar Helgadóttur. Ingólfur lærði rafvirkjun og starfaði sem rafverktaki og rak sitt eigið fyrirtæki, Rafverkstæði IB, fram á síðasta dag eða í 47 ár.
Ingólfur átti sæti í bæjarstjórn Njarðvíkur í 12 ár og þar af forseti bæjarstjórnar í 4 ár. Ingólfur starfaði mikið í félagsmálum. Hann sat í stjórn Rafverktakafélags Suðurnesja, stjórn Landssambands íslenskra rafverktaka, í rafveitunefnd Njarðvíkur, í stjórn og sem stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja, í Lionsklúbbi Njarðvíkur starfaði hann í rúm 40 ár, í JC Suðurnes og sem forseti um skeið, einn af stofnendum Unghjónaklúbbs og Nýja Hjónaklúbbsins. Ingólfur sinnti ýmsum trúnaðarstörfum í Sjálfstæðisflokknum frá 16 ára aldri, einnig starfaði hann í kirkjustarfi Ytri-Njarðvíkurkirkju í 25 ár. Hann var í Frímúrarareglunni frá 1985.
Eftirlifandi eiginkona Ingólfs er Halldóra Jóna Guðmundsdóttir, húsmóðir. Börn þeirra eru Elín Jóhanna gift Joe A. Livingston, Arnar giftur Önnu Birnu Árnadóttur, Ragnhildur Helga gift Ólafi Birgissyni, Brynja gift Jóhanni B. Magnússyni, Guðmundur Þórir giftur Karlottu Sigurbjörnsdóttur. Barnabörnin eru 14 og langafabörnin eru 4.