Ingibjörg Þorbergs látin
Ingibjörg Kristín Þorbergs, tónskáld, söngkona og fyrrverandi dagskrárstjóri Ríkisútvarpsins, er látin 91 árs að aldri. Ingibjörg fæddist í Reykjavík 25 október 1927 og ólst þar upp. Hún var dóttir hjónanna Kristjönu Sigurbergsdóttur húsmóður og Þorbergs Skúlasonar skósmíðameistara. Bróðir hennar var Skúli Ólafur Þorbergsson, fæddur 1930.
Ingibjörg stundaði meðal annars nám við Tónlistarskóla Reykjavíkur og Kennaraskóla Íslands og dvaldi ennfremur við nám í Dante Alighieri-skólann í Róm. Hún hóf störf hjá Ríkisútvarpinu 1946 og starfaði þar við ýmis störf til 1985. Hún starfaði einnig við kennslu um tíma og sem blaðamaður.
Ingibjörg samdi sönglög, dægurlög og barnalög, söng inn á fjölda hljómplatna og samdi sjö leikrit fyrir börn og unglinga. Hún fékk margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2003. Þá hlaut hún riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 2008 fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.
Ingibjörg giftist Guðmundi Jónssyni píanóleikara 1976, (1929-2010). Hún var búsett síðustu æviárin í Reykjanesbæ.