Ingibjörg Sólrún: "Ekki góð hagfræði að ráðast í stóriðju á SV-horninu"
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar , sagði í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingar í dag að henni lítist ekki vel á hugmyndir um frekari uppbyggingu á stóriðju á Suðvesturhorninu. Þar vísar hún sennilega til fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík og ber við að slíkt sé líklegt til að auka enn við verðbólgu.
Á fréttavefnum Eyjunni er haft beint eftir formanninum: „Þá er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki góð hagfræði við núverandi aðstæður að ráðast í stóriðjuframkvæmdir á suðvesturhorninu sem eru líklegar til auka á verðbólguþrýstinginn. Um þau mál munum við ræða síðar hér á fundinum sem og þau takmörkuðu stjórntæki sem við höfum til að haga framkvæmdum í takt við stefnu og stöðu í efnahags-, byggða- og umhverfismálum.“
Eins og flestir vita, gáfu Reykjanesbær og Garður út byggingarleyfi fyrir álveri í Helguvík þann 12. mars sl. Í kjölfarið hófust undirbúningsframkvæmdir m.a. við að leggja veg að fyrrihugaðri lóð.
Hafa þau leyfi hins vegar verið umdeild og telur Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar t.d. að þar sé um að ræða vonda stjórnsýslu. Umhverfisráðuneyti sé ekki enn búið að skera úr um kröfu Landverndar um að ógilda álit Skipulagsstofnunar á framkvæmdunum og meta allar framkvæmdir sem tengjast álverinu í heild sinni. Verði álitið fellt úr gildi séu forsendur sveitarfélaganna, til að veita fyrrnefnt byggingarleyfi, brostnar.
Þá hafa Náttúruverndarsamtök Íslands kært útgáfu leyfanna til Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og krefjast þess að þau verði felld úr gidli, eða að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til málið verður til lykta leitt.
Þrátt fyrir skoðun Ingibjargar Sólrúnar liggur fyrir að það er ekki á höndum Alþingis að gefa út leyfi fyrir að reisa stóriðjumannvirki eins og kom fram í viðtali Víkurfrétta við Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra. „Það er fyrst og fremst ákvörðun sveitarfélaganna og fyrirtækjanna, en ef menn ætla að taka þá akvörðun verður auðvitað að leysa öll vandamálin sem eru á vegi þess að reisa slíkt.“ Össur taldi líkurnar á álveri í Helguvík hafa aukist undanfarið en bætti við að það ráðist m.a. af því hvort menn geti fundið orku til að knýja álverið.
Klykkti hann út með því að lokum að mikilvægt væri að ná sátt um málið. Honum þætti til dæmis skrítið að hann, sem iðnaðarráðherra, hafi ekki haft hugmynd um það að til stæði að gefa út fyrrnefnd framkvæmdaleyfi.
VF-mynd/pket