Ingibjörg segist munu leiða Samfylkinguna í nýjum kosningum
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar sagði að það væri sennilega einstakt að formenn tveggja stjórnarflokka í ríkisstjórn glímdu við jafn mikla erfiðleika í einkalífi og á sviði stjórnmála. Hún kom til landsins frá Stokkhólmi nú síðdegis og ræddi við fréttamenn í Leifsstöð.
Ingibjörg sagði að hún hefði fengið góðar fréttir á sjúkrahúsinu í Stokkhólmi varðandi sín veikindi og því væri hún bjartsýn með sína heilsu. Hins vegar væri hún gríðarlega slegin yfir ótíðindum frá forsætisráðherra og hans veikindum.
Hún var spurð m.a. út í samstarf í ríkisstjórn fram á vorið og sagði allt opið í þeim efnum en lagði áherslu á að ekki væri hægt að hlaupa frá borði núna. Hins vegar útilokaði hún ekki hinn möguleikann að nýtt stjórnarsamstarf yrði þar til kosið yrði á nýjan leik, hvort sem það yrði 9. maí eða annan heppilegan dag. Ingibjörg sagði aðspurð að hún myndi leiða flokkinn í næstu kosningum.
Á myndinni að ofan má sjá Ingibjörgu eftir fréttamannafundinn á leið út með manni sínum, Hjörleifi. Til hliðar við hana eru Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður og Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarkona Ingibjargar.
Sjá viðtal við Ingibjörgu Sólrunu í VefTV hér eftir smá stund.