Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ingibjörg  formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar
Þriðjudagur 18. janúar 2011 kl. 15:12

Ingibjörg formaður kjördæmisráðs Samfylkingarinnar

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hélt aðalfund sinn í Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi laugardaginn 15. janúar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ingibjörg Garðarsdóttir var kosin formaður stjórnar kjördæmisráðsins í stað Eysteins Eyjólfssonar sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Auk Ingibjargar voru Unnur G. Kristjánsdóttir varaformaður, Árni Rúnar Þorvaldsson gjaldkeri, Hannes Friðriksson ritari, Páll Valur Björnsson, Inga Sigrún Atladóttir, Sólveig Adolfsdóttir, Unnar Þór Böðvarsson, Soffía Sigurðardóttir og Óskar Hróbjartsson kosin í stjórn.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum leiddu þau Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, Margrét S. Björnsdóttir formaður framkvæmdastjórnar og Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastýra Samfylkingarinnar umfjöllun um skýrslu og tillögur umbótanefndar Samfylkingarinnar um eflingu innra starfs flokksins.

Eftir fjörugar umræður samþykkti aðalfundurinn neðangreinda stjórnmálaályktun:

Stjórnmálaályktun aðalfundar kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi haldinn að Reykjum í Ölfusi laugardaginn 15. janúar 2011

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fagnar þeim mikla árangri sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur náð á erfiðum tímum. Ábyrgri jafnaðarstefnu hefur verið framfylgt, efnahagsmarkmiðum náð á sama tíma og áhrif kreppunnar á lægri- og millitekjuhópa hafa verið milduð. Tekist hefur að snúa við samfélagsþróun undanfarinna ára með þeim afleiðingum að ójöfnuður í samfélaginu fer minnkandi.

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi skorar á ríkistjórnina að tryggja þjóðareign á auðlindum landsins. Ráðið fagnar boðuðum breytingum á stjórn fiskveiða sem fela í sér varanlegt eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins, sjálfbæra nýtingu, jafnræði við úthlutun veiðiheimilda, trygg rekstrarskilyrði sjávarútvegs og það að arðurinn af auðlindinni renni með sanngjörnum hætti til þjóðarinnar.

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi skorar á ríkisstjórnina að tryggja framgang vegabóta á Suðurlandsvegi með aðskilnaði akreina án upptöku sértækra vegtolla á leiðinni. Slík veggjöld hefðu í för með sér grófa mismunun út frá búsetu og græfu undan búsetuskilyrðum á svæðinu. Kjördæmisráðið hafnar með öllu þeim hugmyndum um sértæka gjaldheimtu á íbúa Reykjaness og Suðurlands og hvetur ríkisstjórnina til að tryggja framgöngu vegabótanna án slíkrar gjaldtöku.

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hvetur stjórnvöld til að ljúka sem fyrst skoðun á kostum þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands til Suðurnesja. Suðurnesjayfirlýsing ríkisstjórnarinnar gefur væntingar um að málið nái fram að ganga og hvetur kjördæmisráðið stjórnvöld til að ljúka flutningi sem fyrst.

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hvetur stjórnarmeirihlutann til þess að samþykkja, nú á vorþingi, frumvarp um að ráðherrar segji af sér þingmennsku á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Þannig væri hægt að stíga strax stórt skref í þá átt að skilja raunverulega á milli framkvæmdavalds og löggjafans.

Kjördæmisráðið fagnar því að þröskuldum í vegi stórra atvinnuverkefna á Suðurnesjum hefur verið rutt úr vegi og vonast til þess að þau verði að veruleika sem fyrst. Þá fagnar ráðið aðgerðum ríkistjórnarinnar á Suðurnesjum í velferðar- og atvinnumálum. Verið er að vinna gegn áhrifum þess mikla atvinnuleysis sem þar er samhliða því að stuðla að framtíðaruppbyggingu atvinnumála á Suðurnesjum byggðri á sameiginlegri sýn heimamanna.

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fagnar sérstaklega aðildarviðræðum við Evrópusambandið og því að væntanlegur samningur gangi til þjóðaratkvæðis. Umsókin um aðild að ESB er einn af grundvöllum stjórnarsamstarfsins og endurreisnar efnahags Íslands.

Kjördæmisráðið fagnar skýrslu umbótanefndar Samfylkingar og markvissri vinnu við úrvinnslu á tillögum nefndarinnar um eflingu innra starfs flokksins.

Kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi lýsir yfir stuðningi við þingflokk Samfylkingarinnar og ánægju með störf þingmanna flokksins við krefjandi aðstæður. Ástæða er til að fagna sérstaklega þeirri eindrægni sem einkennir störf hinnar öflugu liðsheildar sem 20 manna þingflokkur Samfyllkingarinnar er.