Ingi Gunnarsson borinn til grafar
Ingi Gunnarsson var borinn til grafar í gærdag en útför hans fór fram í kyrrþey frá Ytri-Njarðvíkurkirkju. Ingi lést þann 2. október síðastliðinn.
Körfuknattleiksdeild UMFN hefur gefið fólki færi á því að skila inn minningargrein eða einhverju tengdu Inga til birtingar á síðu sinni en Ingi var mikill körfuknattleiksfrömuður og kom m.a. að stofnun Körfuknattleikssambands Íslands.
Á www.umfn.is/karfan er hægt að nálgast undirsíðu á vefsíðunni sem ber heitið „Minningasíða“ en þar hefur fjöldi manns nú þegar skrifað til minningar um Inga.
Ingi Friðbjörn Gunnarsson fæddist 2. maí 1931 á Framnesveginum í vesturbæ Reykjavíkur. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 2.
október. Foreldrar hans voru Margrét Ágústa Magnúsdóttir húsfreyja fædd í Reykjavík 21. ágúst 1894, d. 1. desember 1973 og Gunnar Bjarnason verkamaður fæddur í Nýlendu, Langholtssókn V-Skaftafellssýslu 10. nóvember 1892, d. 7. júní 1980.
Systkini Inga eru Katrín f. 1927 d. 1997, Óskar Finnur f. 1929 d. 1981, Kristjana Matta f. 1932 d. 1965, Svanhvít f. 1935 d. 1982 og Karl Magnús f. 1938. Einnig var Magnús Aðalsteinsson f. 1924 uppeldisbróðir hans. Ingi giftist Guðrúnu Ólafíu Guðný Ólafsdóttur eða Lillu eins og allir þekkja hana 4. júlí 1953. Eignuðust þau 2 syni þá Ólaf Gunnar f. 1955 kvæntur Huldu Þórsdóttur og Ástþór f. 1964 kvæntur Elfu Jónsdóttur.
Útför Inga var gerð frá Njarðvíkurkirkju 11. október í kyrrþey að eigin ósk.
VF-mynd/ Jón Björn Ólafsson - Frá útför Inga í gærdag