Inga Sigrún hætt í bæjarstjórn Voga
	Inga Sigrún Atladóttir, fyrrverandi forseti bæjarstjórnar, er hætt í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga. Hún hefur flutt lögheimili sitt úr sveitarfélaginu og hefur því ekki lengur seturétt í bæjarstjórn.
	
	„Ég vil þakka öllum íbúum sveitarfélagsins kærlega fyrir ánægjulegt samstarf, ég kveð ykkur með mikilli eftirsjá en einnig með stolti yfir öllum þeim málum sem ég hef barist fyrir þau 7 ár sem ég hef setið í bæjarstjórninni,“ segir hún í bréfi sem lesið var upp á síðasta bæjarstjórnarfundi í Vogum.
	
	Bæjarstjórn þakkar Ingu Sigrúnu samstarfið og óskar henni velfarnaðar í þeim verkefnum sem hún nú hefur tekið sér fyrir hendur.
	
	Bæjarstjórn samþykkir að fyrsti varamaður H-listans, Björn Sæbjörnsson, taki nú sæti sem aðalmaður og fulltrúi H-listans í bæjarstjórn. Jafnframt er samþykkt að Jón Elíasson verði fyrsti varamaður H-listans í bæjarstjórn.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				