ÍLS selur 108 íbúðir á Suðurnesjum
- Sjóðurinn á enn 242 íbúðir á Suðurnesjum
Íbúðalánasjóður hefur selt 108 íbúðir á Suðurnesjum í stærsta einstaka opna söluferli í sögu sjóðsins sem nú er yfirstaðið. Söluandvirði íbúðanna á Suðurnesjum var 1.699 milljónir króna.
Sjóðurinn seldi 356 íbúðir um land allt. Íbúðirnar voru auglýstar í opnu söluferli og fara þær að stóru leyti til leigufélaga sem hyggjast leigja þær út áfram. Heildarsöluverðmæti íbúðanna allra nemur 6.414 milljónum króna sem er 864 milljónum króna yfir skráðu virði þeirra í bókum sjóðsins. Sjóðurinn á nú um 900 íbúðir, þar af 242 á Suðurnesjum og stefnir á að selja meirihluta þeirra fyrir lok ársins.
Íbúðirnar á Suðurnesjum voru seldar í þremur eignasöfnum. Í tilkynningu frá sjóðnum segir að aðallega séu þetta íbúðir sem lent höfðu í fangi hans vegna efnahagshrunsins. Þær elstu hafa verið í eigu sjóðsins í um átta ár.
Opið söluferli, þar sem allir áhugasamir kaupendur gátu komið að, hófst í desember síðastliðnum. Um hundrað aðilar kynntu sér söluferlið og rúmlega fjörutíu tilboð bárust. Alls voru boðnar til sölu eignir í 15 eignasöfnum en tilboðum í fjögur þeirra var hafnað þar sem þau reyndust vera langt undir matsverði Íbúðalánasjóðs.
Í tilkynningu frá sjóðnum segir að áfram verði unnið að sölu þeirra eigna sem ekki fengust nógu há tilboð í í samvinnu við fasteignasala á viðkomandi stöðum um landið. Mikill meirihluti af sölu fasteigna sjóðsins undanfarin ár hefur verið til einstaklinga og fer fram í gegnum samstarf sjóðsins við félag fasteignasala.