Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Illa skrifandi svikahrappar þykjast selja týndan farangur
Á síðunni er reynt að svíkja fólk.
Fimmtudagur 23. maí 2024 kl. 13:01

Illa skrifandi svikahrappar þykjast selja týndan farangur

„Vegna of fullra flugvallarskápanna og misheppnuðra tilrauna til að finna eigendur, verðum við að selja týnda ferðatöskur sem hafa verið í geymslu í 6 mánuði til að vinna skilvirklega! Ekki uppboð! Verð 1€ Nánar á um tilboðið og til að setja inn pöntun smelltu hér:“ Þennan texta má finna á Facebook á síðu sem sett er upp eins og hún sé síða fyrir Keflavíkurflugvöll. Að baki síðunni stranda svikahrappar sem reyna að hafa fé af fólki. Á síðunni er meðal annars auglýstur til sölu týndur farangur en texti síðunnar er illa skrifaður og glöggir átta sig fljótt á því að þarna er óhreint mjöl í pokahorninu.

„Við höfum ekki upplýsingar um eðli svikastarfseminnar umfram það sem kemur fram á Facebook-síðunni. Við heyrðum fyrst af þessu svindli í nóvember í fyrra og nú er þetta að skjóta upp kollinum aftur. Þegar þetta kom upp í fyrra þá hafði fólk samband við flugvöllinn og spurðist fyrir um þetta en var þá upplýst að um svik væri að ræða. Nú í dag hafa okkur borist símtöl frá fólki sem er að spyrjast fyrir um töskusöluna og við bendum fólki þá á að um svindl sé að ræða,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðjón segir erfitt að ná beinu sambandi við Meta, móðurfyrirtæki Facebook, til að fá síður sem þessar teknar niður og það er einnig reynsla annarra íslenskra fyrirtækja og alþjóðaflugvalla í öðrum löndum sem hafa orðið fyrir svipuðu svindli.

„Eina leiðin er að tilkynna síðuna á Facebook og benda síðan á það opinberlega að um svikasíðu sé að ræða. Við höfum ítrekað tilkynnt síðuna og sagt frá svindlinu í fjölmiðlum. Hve margar tilkynningar þarf til að fá svona síður teknar niður vitum við ekki,“ segir Guðjón og bætir við: „Um leið og þetta kom upp í nóvember hófum við það ferli að fá Facebook síðu Keflavíkurflugvallar (https://www.facebook.com/kefairport) staðfesta af Facebook (e. verified) með bláu merki. Það var ferli sem tók um hálft ár og er nú í höfn. Þannig að ef síðan er ekki merkt með bláa merkinu og lógói flugvallarins þá er um svikasíðu að ræða.“

— Á þessari svikasíðu er verið að auglýsa týndan farangur til sölu og vonast til að fólk bíti á agnið. Hvernig er í raun farið með týndan farangur á Keflavíkurflugvelli?

„Týndur farangur er ekki undir neinum kringumstæðum seldur. Securitas annast tapað/fundið fyrir Keflavíkurflugvöll, þ.e. flugvöllinn sjálfan og má finna allar upplýsingar tengda töpuðum munum á vellinum hér https://www.isavia.is/keflavikurflugvollur/fyrir-flug/tapad-fundid og tapaða muni hjá flugfélögunum hér https://www.isavia.is/keflavikurflugvollur/fyrir-flug/tyndur-farangur

Í fæstum tilvikum er það farangur sem týnist á flugvellinum sjálfum. Flugfélög og þjónustuaðilar þeirra hafa hann í sinni vörslu eftir að hann hefur verið innritaður og kominn í gegnum flokkunarkerfið og geta félögin og þjónustuaðilar betur sagt til um þeirra ferli ef farangur tapast hjá þeim.

Það sem týnist á Keflavíkurflugvelli og ratar í tapað fundið hjá okkur eru smærri munir eins og t.d. farsímar, spjaldtölvur og leikföng. Hægt er að hafa samband við þjónustuaðila okkar vegna týndra muna í gegnum síma, tölvupóst eða netsíðu og hægt að nálgast muni á skrifstofutíma eða þá fá þá senda á eigin kostnað hvert á land sem er til réttmæts eiganda. Sé þeirra ekki vitjað innan 30-60 daga er munum fargað. Vegabréf sem gleymast er ekki fargað heldur fara þau í vörslu lögreglu séu þau ekki sótt innan fárra daga,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

Hér er skjáskot af svikasíðunni á Facebook.
Svona er raunverulega síða Keflavíkurflugvallar. Bláa táknið fyrir aftan heiti síðunnar staðfestir að hún er raunveruleg.