Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Iðnaðarráðherra ósáttur við samning Reykjanesbæjar og HS Orku
Þriðjudagur 8. september 2009 kl. 16:37

Iðnaðarráðherra ósáttur við samning Reykjanesbæjar og HS Orku


Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, hefur sent bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ bréf vegna samningagerðar bæjarins við HS Orku um nýtingarrétt á orkuauðlindum í eigu bæjarins. Í bréfinu lýsir ráðherrann þeirri skoðun sinni að samningurinn gangi gegn anda laga um orkunýtingu. Þá telur Katrín leigutímann of langan og verið sé að binda hendur þeirra sem síðar muni koma að endurskoðun samningsins fyrir hönd eigenda auðlindarinnar.

Samningur HS Orku og Reykjanesbæjar er til 65 ára en sá tími er innan ramma laganna. Að samningstíma hálfnuðum, eða eftir 32 ár, geta samningaðilar endurskoðað samninginn og tekið afstöðu til framhaldsins, þ.e. hvort hann verði framlengdur eður ei, allt eftir þeim forsendum sem samningsaðilar gefa sér þegar þar að kemur.

Iðnaðarráðherra segir samninginn ganga gegn anda orkulaganna vegna þess að í honum sé kveðið á um á hvaða forsendum viðræður skuli fara fara fram að liðnum 32 árum, þ.e. einungis sé talað um framlenginu. Búið sé að ákveða út á hvað viðræðunar skuli ganga að þessum tíma liðnum. Þannig sé verið að binda hendur þeirra sem þá munu fjalla um samninginn fyrir hönd bæjarins eða eigenda orkuauðlindanna. Þetta kom fram í máli Katrínar í Kastljósviðtali í gær.

Iðnaðarráðherra beinir þeim tilmælum til bæjaryfirvalda að samningurinn verði endurskoðaður í þessu ljósi. Þá bendir Katrín á að nefnd á vegum ríkisins vinni nú að mótun stefnu hvernig orkuauðlindum ríkisins verði ráðstafað til framtíðar. Hún telur rétt að samningur HS Orku og Reykjanesbæjar verði endurskoðaður með hliðsjón af þeirri stefnu en í henni er fjallað bæði um auðlindagjald og leigutíma á orkuauðlindum.

Aðspurð í Kastljósi sagði Katrín það álitaefni hvort HS Orka væri að greiða of lágt gjald fyrir nýtingaréttinn. Henni sjálfri fyndist svo vera með tilliti til þess hve samningstíminn væri langur.

Þess má geta að Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, hefur brugðist við bréfi iðnaðarráðherra með grein hér á vf.is sem lesa má hér að neðan.

Skýr lög - óskýr ráðherra.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/elg