Iðnaðarráðherra kynnti sér starfsemi á Ásbrú
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra heimsótti í gær sprotafyrirtækið HBT hef. sem hefur aðsetur á Ásbrú í Reykjanesbæ. HBT vinnur að orkusparandi lausnum, m.a. fyrir skip og verksmiðjur, eins og við höfum nýlega kynnt í Víkurfréttum.
Katrín heimsótti fyrirtækið í gær og kynnti sér starfsemi þess og framtíðarsýn. Þá skoðaði hún þá starfsemi sem fram fer undir þaki Eldeyjar á Ásbrú og fór í skoðunarferð um svæðið. Katrín hafði aldrei átt þess kost að skoða varnarstöðina í Keflavík á meðan hún var og hét en fékk gott tækifæri í gær til að kynna sér þær hugmyndir sem unnið er með á svæðinu.
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar iðnaðarráðherra kom í höfuðstöðvar HBT á Ásbrú, þar sem Jóhann R. Benediktsson tók á móti Katrínu. Eftir heimsóknina til HBT fór Hjálmar Árnason Keilismaður með Katrínu í skoðunarferð um húsið Eldey og um svæðið og kynnti henni þá uppbyggingu sem þar á sér stað.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson