Iðnaðarnefnd kanni aðkomu Landsvirkjunar að Helguvík
Formaður iðnaðarnefndar Alþingis, Kristján L. Möller, ætlar að beita sér fyrir því að kannað verði hvort Landsvirkjun geti tekið yfir orkuöflun Orkuveitunnar vegna álversins í Helguvík.
Björgvin G. Sigurðsson var í hópi þeirra sem tók fyrstu skóflustungu að álverinu í Helguvík fyrir tæpum þremur árum. Á Alþingi í dag lýsti hann áhyggjum af þeim alvarlegu tíðindum sem borist hefðu af stöðu Orkuveitu Reykjavíkur og getu hennar til að standa við sinn hluta af raforkuöflun til álvers í Helguvík.
Hann hefði því ásamt mörgum velt því upp hvort mögulegt og gerlegt væri að Landsvirkjun kæmi með einhverjum hætti að álversverkefninu í Helguvík, annaðhvort eða bæði með umframorku sinni í kerfinu og hinsvegar með aðkomu að verkefnum Orkuveitunnar, Hverahlíðarvirkjun og stækkun Hellisheiðarvirkjunar.
Björgvin spurði formann iðnaðarnefndar Alþingis, Kristján L. Möller, hvort hann vildi beita sér því að nefndin hefði frumkvæði að slíkum viðræðum. Kristján svaraði:
„Já, ég skal beita mér fyrir því að allir þessir aðilar, sem við getum kallað til og vilja koma til okkar og ræða - við skulum hafa það í huga að stundum er um viðskiptamál að ræða - að kalla þá til nefndarinnar.“
Kristján sagði að tvö þúsund störf yrði til innan fimm mánaða ef Helguvíkurframkvæmdirnar kæmust í gang. Það væri ekki svo lítið þegar haft væri í huga að fimmtán þúsund manns gengju um atvinnulausir. Það væri eitt mesta þjóðfélagsmeinið um þessar mundir sem kostaði um þrjátíu milljarða króna.
Frá þessu er greint á www.visir.is