Icelandair með yfir 100 brottfarir á viku frá Kef í fyrsta sinn í 15 mánuði
Icelandair mun ná þeim áfanga í þessari viku að vera með yfir 100 brottfarir frá Keflavíkurflugvelli. Það markar ákveðin tímamót því þetta er í fyrsta sinn frá því um miðjan mars 2020 sem félagið er með yfir 100 brottfarir á einni viku. Vikuna 9.-15. mars 2020 tóku ferðatakmarkanir gildi vegna COVID-19 faraldursins, fyrst í Bandaríkjunum og stuttu síðar í Evrópu.
Bæði alþjóðaflug og innanlandsflug hefur tekið við sér samhliða því sem bólusetningum miðar fram og létt er á ferðatakmörkunum. Í þessari viku flýgur Icelandair 106 áætlunarferðir í millilandaflugi og yfir 70 ferðir innanlands, auk þess sem félagið heldur uppi fraktflugi og leiguflugi. Í síðustu viku hóf félagið flug til Billund og Genf í Evrópu á nýjan leik og til Minneapolis í Bandaríkjunum. Í þessari viku hefur Icelandair einnig flug til Helsinki á ný. Félagið flýgur nú í beinu flugi til 23 áfangastaða, fimmtán í Evrópu og átta í Norður-Ameríku.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Það felast ákveðin tímamót í því að fljúga yfir 100 flug til áfangastaða Icelandair í einni viku eftir 15 mánaða baráttu við heimsfaraldur. Samhliða bólusetningum og auknu svigrúmi til ferðalaga hefur ferðavilji í heiminum aukist og við finnum fyrir aukinni eftirspurn almennings. Rétt eins og okkur tókst að draga hratt saman seglin við upphaf faraldursins höfum við lagt áherslu á að viðhalda sveigjanleika Icelandair til að mæta þeirri eftirspurn og auka starfsemi okkar hratt og örugglega þegar aðstæður gefa tilefni til. Með því tryggjum við öruggar samgöngur til og frá landinu þannig að ferðamenn komist hingað til lands og Íslendingar til útlanda.“