Icelandair með 2/3 umferðar um Keflavíkurflugvöll
Icelandair og Wow Air stóðu fyrir rúmlega átta af hverjum tíu ferðum frá Keflavíkurflugvelli í ágúst. Þetta kemur fram á vefnum Túristi.is.
Tvær af hverjum þremur vélum sem tóku á loft frá Keflavíkurflugvelli í ágúst voru á vegum Icelandair. Ferðir Wow Air voru nær jafnmargar og hinna fjórtán flugfélaganna sem héldu uppi áætlunarflugi frá Keflavík í ágúst samkvæmt talningu Túrista.
Icelandair og Wow Air voru langatkvæðamest í flugi til og frá landinu í sumar og vægi þeirra eykst enn frekar næstu mánuði því erlendu félögin láta flest duga að fljúga hingað á sumrin. Það er þó útlit fyrir að ferðum Easy Jet fjölgi því Viðskiptablaðið hefur það eftir framkvæmdastjóra félagsins að það komi til greina að fjölga áfangastöðum félagsins héðan.
Í vetur verður boðið upp á beint flug til 33 áfangastaða frá Keflavík.
Vægi fimm umsvifamestu félaganna á Keflavíkurflugvelli í ágúst, í brottförum talið:
Icelandair: 66,8%
Wow air: 15,3%
Air Berlin: 3,2%
Easy Jet: 2,4%
SAS: 2%