Icelandair 757 þota lenti í Keflavík eftir grun um eld í hreyfli
Boeing 757 þota Icelandair lenti heilu og höldnu í Keflavík eftir að öryggisljós kviknaði í flugstjórnarklefa vélarinnar sem gaf til kynna að eldur væri í öðrum hreyfli vélarinnar. Vélin var á leið til Frarnkfurt með 140 farþega og var henni snúið við þegar í stað til Keflavíkur en hún var aðeins um 40 sjómílur frá landi og lenti kl. 9.12 á öðrum hreyfli.
Var farþegum vísað í næstu vél Icelandair sem var tilbúin að fara með farþegana til Frankfurt en hún var á áætlun kl. 11. Allir björgunaraðilar, slökkvilið og lögregla voru í viðbragðsstöðu og var viðbúnarstig í efsta stigi.Strax eftir lendingu var hættustigi afstýrt og öllum björgunaraðilum vísað til baka.
Flugvélin sem ber heitið Eldborg, fer beint í viðhaldsskýli þar sem hreyfillinn verður skoðaður.
Farþegar þurftu að færa sig yfir í aðra vél.
Starfsmenn IGS þurfti að selflytja farangur yfir í næstu Icelandair vél.
Slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli voru til taks þegar vélin lenti. Hér má sjá tvo þeirra við „bilaða“ hreyfilinn. VF-myndir/Páll Ketilsson.