Iceland Express sendi út ferðaávísanir fyrir 500 milljónir
Flugfélagið Iceland Express sendir ferðaávísanir fyrir samanlangt 500 milljónir króna í dag til félaga í netklúbbi fyrirtækisins. Ávísanirnar eru sendar með tölvupósti og er upphæð hverrar ávísunar 5.000 krónur. Um 100 þúsund félegar eru í netklúbbi félagins og hægt verður að nota næstu fimm daga til að bóka flugferð með flugfélaginu næsti þrjá mánuði.
„Búist er við að útsendingu ferðaávísananna verði lokið um kl. 16. Ferlið er tímafrekt þar sem tengja þarf saman með rafrænum hætti netfang viðtakanda og 16 stafa lykilnúmer til að nýta þennan 5.000 kr. afslátt af fargjöldum Iceland Express.
Sú 500 milljón króna þjóðargjöf sem nú er verið að senda út hefur þá sérstöðu að ferðaávísunin gildir í flestallar flugferðir félagsins næstu þrjá mánuði. Tilboðið er því ekki bundið ákveðnum dagsetningum eða vikudögum. Ennfremur má bóka hvern sem er í flug með ferðaávísuninni.
Gríðarlegur áhugi hefur verið fyrir þessari sannkölluðu þjóðargjöf og bættust 14.000 nýir netklúbbsfélagar við síðustu fjóra daga. Þeir eru nú samtals 100 þúsund og er netklúbbur Iceland Express þar með orðinn næst stærsti netklúbbur landsins,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.