Íbúum Reykjanesbæjar fjölgað um 175 frá áramótum
Íbúum Reykjanesbæjar hefur fjölgað um 175 frá síðustu áramótum og voru 19.598 um síðustu mánaðamót. Þetta gerir fjölgun íbúa upp á 0,9%. Íbúum Grindavíkur hefur fjölgað um 41 á sama tímabili og eru nú 3.549 talsins. Fjölgunin er upp á 1,2%.
Suðurnesjabær er næstfjölmennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum með 3.648 íbúa og fjölgun upp á 62 frá síðustu áramótum eða 1,7% fjölgun. Íbúum í Sveitarfélaginu Vogum fjölgar hins vegar hlutfallslega mest. Þar hefur orðið 2,2% fjölgun á tímabilinu, íbúar eru í dag 1.337 og hefur fjölgað um 29 á tímabilinu.
Reykjanesbær varð í fyrsta skipti stærri en Akureyri fyrir fáum misserum. Íbúar Akureyrar eru í dag 19.101 og vantar því 497 íbúa til að jafna Reykjanesbæ sem er fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins. Aðeins Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður eru fjölmennari.