Íbúum í Reykjanesbæ fjölgaði um 1100
49 lóðum úthlutað á síðasta ári
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, hélt kynningarfund um fjármál og framkvæmdir í Reykjanesbæ í Hljómahöll í vikunni. Á fundinum kom meðal annars fram að góður árangur hafi náðst við að rétta fjárhag bæjarfélagsins af. Íbúafjöldi jókst um 1100 á síðasta ári. 49 lóðum var úthlutað í Reykjanesbæ á síðasta ári. Flestar voru undir atvinnuhúsnæði við Flugvelli eða 19 talsins. 17 einbýlishúsalóðum var úthlutað, 8 raðhúsalóðum og 5 parhúsalóðum. Viðlíkum fjölda lóða hefur ekki verið úthlutað síðan fyrir hrun.
Undanfarin ár hafa einkennst af hagræðingu í rekstri Reykjanesbæjar með gerð Sóknarinnar árið 2014. Þar er meðal annars kveðið á um aðhaldaðgerðir til að auka framlegð, stöðvun á streymi fjármagns úr A-hluta (bæjarsjóður) yfir í B-hluta (tengdar stofnanir), sölu fasteigna og endurskipulagningu skulda og frestun fjárfestinga. Samkomulag var undirritað þann 22. desember síðastliðinn við innanríkisráðherra og er markmiðið með því að stuðla að sjálfbærni í rekstri Reykjanesbæjar á þessu ári í samræmi við 1. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá gerir samkomulagið ráð fyrir áframhaldandi markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri bæjarins svo að fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga verði náð. Þær eru að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Á fundinum fór Kjartan yfir þann árangur sem hefur náðst og sagði allt útlit fyrir að það tækist að koma skuldum neðan viðmiðs árið 2022, líkt og samkomulagið kveður á um, ef samningar nást við stærstu kröfuhafa.
Mynd af fundi um fjármál og framkvæmdir í Reykjanesbæ á næstunni. VF-mynd/hilmarbragi
Af helstu framkvæmdum ársins 2016 má nefna endurbætur á Gömlu búð og Fichershúsi, uppbyggingu tjaldsvæðis, umhverfisverkefni í Ásahverfi, hringtorg við Stekk, ýmis verkefni tengd skólum og leikskólum, Led ljósa væðingu í byggingum og götuljósum og fegrun miðbæjar svo nokkuð sé nefnt. Áfram verður unnið að uppbyggingu Gömlu búðar og Fischershúss. Frekari uppbygging verður á framtíðar útivistarsvæðinu ofan byggðar í Ytri-Njarðvík, svokölluðum Njarðvíkurskógum, unnið að aðgengismálum og áfamhaldandi eflingu miðbæjar, ásamt búsetuúrræðum fyrir fatlaða og félagslegt húsnæði, svo nokkrar fyrirhugaðar framkvæmdir ársins 2017 séu nefndar.