Íbúðarmat og fasteignamat lækkar mest í Vogum
Fasteignamat íbúða lækkar um 5,2% í Vogum og 3,3% í Reykjanesbæ
Heildarfasteignamat lækkar mest í Sveitarfélaginu Vogum eða um 3,6% en lækkunin nemur um 0,5% á Suðurnesjum. Matið hækkar um 2,2% á höfuðborgarsvæðinu en um 1,9% á landsbyggðinni. Þar af er mest hækkun á Vestfjörðum eða 8,2%, um 6,5% á Norðurlandi vestra, 3,5% á Austurlandi og um 2,2% á Suðurlandi, 1,9% á Norðurlandi eystra, um 0,4% á Vesturlandi, og lækkun.
Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands segir litlar breytingar að þessu sinni miðað við undangengin ár. „Það ætti ekki að koma á óvart að þegar dregur úr verðhækkunum á fasteignamarkaði þá eru breytingar á fasteignamati í takt við þá þróun,“ segir Margrét um breytingar á milli ára.
Íbúðamatið lækkar í Vogum og Reykjanesbæ
Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 2,3% á milli ára og verður alls 6.511 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 2,2% á meðan fjölbýli hækkar um 2,4%. Almennt er hækkun á íbúðarmati á höfuðborgarsvæðinu 2,4% en 2,1% á landsbyggðinni.
Mestu lækkanir á íbúðamati eru í sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 5,2%, í Vopnafjarðarhreppi lækkar matið um 3,6% og í Reykjanesbæ þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 3,3%.
Fasteignamat sumarhúsa nær óbreytt
Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2021 stendur nánast í stað á milli ára þegar litið er á landið í heild en hækkar að meðaltali um 0,1%. Fasteignamat sumarhúsa hækkar mest í sveitarfélaginu Ölfusi eða um 7,7% og um 6,8% í Ásahreppi. Mesta lækkun á fasteignamati sumarhúsa er í Skorradalshreppi og Sveitarfélaginu Vogum þar sem matið lækkar um 4,3% á milli ára.